Það þýðir á mannamáli að leiða þurfi þau mál til lykta ef halda eigi stjórnarsamstarfinu áfram. Þar með er Vinstri grænum á vissan hátt stillt upp við vegg.
Telja enga þörf á frekari breytingum
Bæði Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna og Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður hafa ítrekað að þau telji enga þörf á að gera breytingar á útlendingalögunum. Enda hafi þeim síðast verið breytt undir lok vorþings. Svandís hefur hefur einnig sagt að hún telji að kjósa ætti næsta vor og landsfundur flokksins ályktaði í þá veru um síðustu helgi.
Fylgi allra stjórnarflokkanna hefur hrunið í könnunum að undanförnu og út frá því mætti ætla að enginn þeirra væri sérstaklega spenntur fyrir kosningum á þessari stundu. Verðbólga fer minnkandi og vaxtalækkunarferlið er hafið, sem gæti lyft fylgi stjórnarflokkanna á næstu mánuðum.
Staðan er hins vegar sú eftir landsfund Vinstri grænna og skyndifund þingflokks Sjálfstæðisflokksins að þessir flokkar hafa á vissan hátt málað sig út í horn. Ef þeir vilja halda stjórnarsamstarfinu áfram, verða þeir að finna lausn á þeirri stöðu.
Landsfundur flækir málin
Þá flækir það stöðuna að vissu leyti að Sjálfstæðismenn hafa boðað til landsfundar um mánaðamótin febrúar-mars. Bjarni hefur látið í það skína að hann muni tilkynna í aðdraganda fundarins hvort hann hyggst bjóða sig fram til endurkjörs eða ekki. Það skýrir kannski lausaganginn á mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem ef til vill eru farnir að horfa til formannsskipta í flokknum og víst er að í þeim efnum eru að minnsta þrír ráðherrar langt gengnir á þeirri pólitísku meðgöngu.
Ólíklegt er að niðurstaða fáist um framtíð stjórnarsamstarfsins fyrr en á reglulegum ríkisstjórnarfundi á þriðjudag. Skynsemin segir manni að oddvitar stjórnarflokkanna nýti helgina til að ráða saman ráðum sínum.
Boða þarf til alþingiskosninga með 45 daga fyrirvara komi til þingrofs. Framboðslistar skulu liggja fyrir eigi síðar en 30 dögum fyrir kosningar eftir að þing hefur verið rofið. Ríkisstjórnin yrði starfsstjórn um leið og boðað hefur verið til kosninga.