Flest bendir til þess að kosningar verði 30. nóvember. Verði það raunin þurfa flokkarnir að vera búnir að leggja fram framboðslista sína mánuði fyrr, 30. október.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, segir að miðað við tímalínuna sem Bjarni leggur upp með sé líklegast að uppstilling verði niðurstaðan.
„Og stefnir allt í að það verði þá uppstilling um allt land. Auðvitað er Halla núna að taka sér tíma til að íhuga, og endanlegur kjördagur liggur ekki fyrir. En miðað við þessar tímalínur, mánaðamótin nóvember/desember, þá er lítið annað í stöðunni heldur en uppstilling,“ segir Guðmundur.

Flokkurinn hafi undirbúið ólíkar sviðsmyndir síðasta árið, og því verið búin undir þessa niðurstöðu. Forysta flokksins muni ekki hafa lokaorðið um uppstillingar, heldur uppstillingarnefndir valdar af kjördæmaráðum.
„Umboðið kemur frá öllum aðildarfélögunum á tilteknu svæði sem skipa nefndir, og svo er það uppstillingarnefnd sem hefur valdið.“
Ekki ákveðið enn hjá Viðreisn og Miðflokki
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, segir að í ljósi hins knappa tímaramma sem lagt er upp með verði farið í uppstillingu. Kjördæmafélög flokksins munu funda í kvöld og taka lokaákvörðun.
Formaður Viðreisnar segir allar vélar í sínum flokki farnar af stað.

„Landshlutaráðin eru að hittast á miðvikudag og fimmtudag. Þá verður tekin ákvörðun um prófkjör eða uppstillingu. Það er allt farið á fleygiferð af stað innan flokksins, og þetta er bara stuð og stemmari,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Hvað gera stjórnarflokkarnir?
Sunna Valgerðardóttir, starfsmaður Vinstri grænna, segir að kjördæmisráð fundi í kvöld og taki lokaákvörðun. Þó sé ljóst að tíminn sé naumur og því uppstilling líklegasta niðurstaðan.

Samkvæmt heimildum fréttastofu funda kjördæmasambönd Framsóknarflokksins þá í vikunni og um helgina, og því ætti framkvæmdin hjá flokknum að öllum líkindum að vera orðin skýr um eða eftir helgi.
Kjördæmaráð sjálfstæðisflokksins ákveður hvort farið verði í uppstillingu eða ekki.
„Í kjólinn fyrir jólin“
Píratar hafa þegar boðað prófkjör á næstu vikum.
Flokkur fólksins fer hins vegar í uppstillingu. Það staðfestir Inga Sæland, formaður í samtali við fréttastofu. Hún segir að listarnir muni liggja fyrir að tveimur vikum liðnum, en flokkurinn muni nýta þær tvær vikur.
„Við ætlum að gera það. Þetta er ekki mikill tími sem flokkarnir hafa til að komast í kjólinn fyrir jólin,“ segir Inga kímin.
