Hinn 29 ára gamli Shaw var meira og minna meiddur allt síðasta tímabil og spilaði aðeins 15 leiki fyrir Man United í öllum keppnum. Hans síðasti leikur var gegn Luton Town þann 18. febrúar en samt sem áður var hann valinn í enska landsliðshópinn sem fór á Evrópumótið í sumar. Þar kom hann við sögu í útsláttarkeppninni þegar England fór alla leið í úrslit en mátti svo þola tap gegn Spáni í úrslitum.
Shaw meiddist síðan á kálfa á undirbúningstímabilinu og hefur ekki komið við sögu á leiktíðinni. Upphaflega var talið að hann myndi snúa aftur í september en það kom bakslag og þá var talið að hann gæti snúið aftur í október. Aftur kom bakslag og nú er alls óvíst hvenær hann snýr aftur.
Þjálfarinn Erik ten Hag, sem var látinn taka poka sinn fyrr í vikunni, sagði í aðdraganda leiksins gegn West Ham United um síðustu helgi að Man United þyrfti að fara varlega með Shaw vegna meiðslasögu hans. Eftir skelfilegt fótbrot á sínu fyrsta tímabili með félaginu hefur hann glímt við ýmiskonar meiðsli.
Ten Hag talaði þó um Shaw sem mikilvægan leikmann og að félagið yrði að vera þolinmótt svo leikmaðurinn gæti nú verið upp á sitt besta þegar hann loks snýr aftur. Með Shaw á meiðslalistanum eru þeir Noussair Mazraoui, Antony, Leny Yoro, Kobbie Mainoo, Mason Mount og Harry Maguire.
Hvað Ten Hag varðar þá verður hann ekki á hliðarlínunni þegar Shaw loks snýr aftur, hvenær sem það verður, þar sem hann var rekinn eftir tapið gegn West Ham um liðna helgi.
Ruud van Nistelrooy mun stýra Rauðu djöflunum þegar Leicester City kemur í heimsókn annað kvöld í deildarbikarnum. Það er síðan talið næsta öruggt að Rúben Amorim, núverandi þjálfari Sporting, taki við Man United á næstu dögum.