Starfsemi segulómunarfyrirtækisins Intuens rataði í fréttir fyrir ári síðan, eftir að læknar stigu fram og gagnrýndu fyrirtækið fyrir að bjóða upp á heilskimun með segulómun, sem margir sögðu peningaplokk. Fréttir voru fluttar af því að fyrirtækið hefði gert grundvallarbreytingar á starfsemi sinni í kjölfarið.
Intuens sótti loks um að komast á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands vegna hefðbundinna segulómrannsókna, sem Sjúkratryggingar eru þegar með við þrjú önnur fyrirtæki en því var hafnað. Intuens kærði Sjúkratryggingar til kærunefndar útboðsmála, krafðist þess að samningar við hin fyrirtækin yrðu lýstir óvirkir og að farið yrði í útboð.
„Þetta eru náttúrulega bara kolólöglegir samningar, og hafa verið í tuttugu ár, sem Sjúkratryggingar hafa alltaf endurnýjað reglulega,“ segir Steinunn Erla Thorlacius, framkvæmdastjóri Intuens.
Með stærri stjórnvaldssektum
Úrskurður kærunefndarinnar, sem gefinn var út í gær, virðist staðfesta þetta. Þar segir að samningarnir hafi verið gerðir heimildarlaust án auglýsingar í andstöðu við lög og skilyrði til að óvirkja þá væru því uppfyllt. Á hinn bóginn krefðust brýnir almannahagsmunir þess að áframhaldandi framkvæmd samninganna væri nauðsynleg og þeir verða því áfram í gildi til 1. janúar næstkomandi. Sjúkratryggingar þurfi þó vegna hinna ólögmætu samninga að greiða 41 milljón króna í stjórnvaldssekt.
„Þetta er með stærri stjórnvaldssektum sem sést hafa,“ segir Steinunn. „Niðurstaðan í þessari kæru er náttúrulega stór viðurkenning gagnvart því að hér sé verið að brjóta lög og svo að hér sé verið að mismuna fyrirtækjum, og hindra eðlilega samkeppni á Íslandi um þessa þjónustu.“
Þó að Steinunn líti á úrskurðinn sem ákveðna viðukenningu verður Intuens ekki ágengt að sinni. Sjúkratryggingar hafi hafið útboð, og með því verði hinir ólögmætu samningar leystir af hólmi með nýjum. En Steinunn hefur ýmislegt við þessa framkvæmd að athuga.
„Þetta útboð sem er núna í gangi gerir nýjum fyrirtækjum ekki kleift að taka þátt í þessu útboði. Þetta er í raun klæðskerasniðið útboð handa þeim fyrirtækjum sem sinna myndgreiningarþjónustu á Íslandi í dag.“