Fótbolti

Letti í landsliðshóp Þjóð­verja fyrir mis­tök

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dario Sits var á listanum þegar þýski landsliðshópurinn var opinberaður í gær en það var síðan leiðrétt enda má hann ekki spila fyrir þýska landsliðið.
Dario Sits var á listanum þegar þýski landsliðshópurinn var opinberaður í gær en það var síðan leiðrétt enda má hann ekki spila fyrir þýska landsliðið. Getty/ Fabio Patamia

Julian Nagelsmann tilkynnti þýska landsliðshópinn sinn í gær fyrir komandi landsleikjaglugga en menn ráku stóru augu þegar þeir sáu eitt nafn í hópnum.

Á meðal nafna eins og Antonio Rüdiger hjá Real Madrid og Kai Havertz hjá Arsenal var nafn Dario Sits.

Vandamálið er að Dario Sits er ekki þýskur heldur lettneskur.

Sits er tvítugur og spilar með hollenska b-deildarliðinu Helmond Sport en hann er þar á láni frá Parma á Ítalíu.

Sits lék sinn fyrsta landsleik fyrir Lettland í síðasta mánuði og komst næst því að spila með þýska landsliðinu þegar hann mætti Þjóðverjum með lettneska 21 árs landsliðinu árið 2022.

Þýska sambandið áttaði sig fljótt á mistökunum og fjarlægði nafn Sits af listanum. Þegar AP sóttist eftir skýringu þá var svarið vandræði með gagnagrunninn.

Varamarkvörður Manchester City, Stefan Ortega, er í hópnum í fyrsta sinn. Marc-André ter Stegen er meiddur. Ortega gæti því spilað sinn fyrsta landsleik.

Þjóðverjar mæta Bosníu og Ungverjalandi í þessum glugga en hafa þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar. Þeir keppast þó enn við að vinna riðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×