Fótbolti

Elanga ekki í lands­liðs­hóp Svía og neitar að svara þjálfaranum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elanga í einum af 19 A-landsleikjum sínum.
Elanga í einum af 19 A-landsleikjum sínum. EPA-EFE/Jessica Gow

Anthony Elanga, leikmaður spútnikliðs Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni, er ekki í landsliðshópi Svíþjóðar fyrir komandi verkefni í Þjóðadeildinni. Landsliðsþjálfarinn Jon Dahl Tomasson hefur reynt að ná í vængmanninn sem svarar ekki símanum og virðist ekki hafa neinn áhuga á að hringja til baka.

Þetta staðfesti Tomasson í samtali við fjölmiðla þann 11. nóvember. Hinn 48 ára gamli Dani staðfesti einnig að loknu síðasta landsliðsverkefni hefði Elanga farið rakleiðis aftur til Englands þegar leik- og starfsmenn landsliðsins hefðu kvöldverð saman.

„Ég held að ég sé ekki rétta manneskjan til að spyrja að því. Það er betra að spyrja hann. Það sem gerist innan hópsins er innan hópsins,“ sagði hinn 48 ára gamli Tomasson aðspurður af hverju Elanga hefði farið beint til Englands.

Þrátt fyrir að spila vel með Forest í ensku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð hefur hinn 22 ára gamli Elanga ekki verið í stóru hlutverki hjá Svíum. Hann fékk nokkrar mínútur þegar liðið spilaði í september en í síðasta verkefni sat hann allan tímann á varamannabekknum.

Svíþjóð er í riðli 1 í C-deild Þjóðadeildarinnar. Lærisveinar Tomasson eru með 10 stig að loknum fjórum leikjum líkt og Slóvakía en þjóðirnar mætast í komandi landsliðsglugga. Síðasti leikur Svía er svo gegn Aserbaísjan sem er án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×