Þrátt fyrir að leika í ensku C-deildinni er Wrexham með frægari liðum Englands um þessar mundir. Ástæðan er uppgangur liðsins síðan Hollywood-stjórstjarnan Ryan Reynolds og leikarinn Rob McElhenney festu kaup á liðinu.
Jón Daði var án félags þegar Wrexham lenti í meiðslakrísu og gerðu í kjölfarið stuttan samning við Jón Daða til að létta á álaginu. Jón Daði hafði komið við sögu í einum deildarleik sem og óvæntu tapi í ensku bikarkeppninni þar sem hann var óheppinn að skora ekki áður en kom að leik kvöldsins. Það var hans fyrsti leikur í byrjunarliðinu og stóð hann fyrir sínu.
Our line-up this evening to face Port Vale 👊
— Wrexham AFC (@Wrexham_AFC) November 12, 2024
🔴⚪️ #WxmAFC pic.twitter.com/DhNl1pgR0B
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en Max Clemworth kom gestunum frá Wales yfir á 51. mínútu. Hann skilaði boltanum þá í netið af stuttu færi eftir að Jón Daði hafði skallað hornspyrnu Anthony Forde fyrir markið.
Stoðsending á íslenska framherjann sem var tekinn af velli á 66. mínútu. Heimamenn í Port Vale jöfnuðu metin þegar átta mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og Port Vale vann síðan vítaspyrnukeppnina sem fylgdi í kjölfarið.
Þó um sé að ræða riðlakeppni þá fara allir leikir sem enda með jafntefli í EFL-bikarnum í vítaspyrnukeppni og liðið sem vinnur hana fær eitt auka stig.
Eftir þrjá leiki í riðli tvö eru Wrexham og Port Vale bæði með sjö stig. Salford er með þrjú stig og U-21 árs lið Úlfanna er með eitt stig.