Innlent

„Þessi á­kvörðun var tekin að frum­kvæði Þórðar“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ákvörðun Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda flokksins í 3. sæti í Reykjavík Norður, um að taka ekki sæti nái hann kjöri alfarið vera hans eigin.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ákvörðun Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda flokksins í 3. sæti í Reykjavík Norður, um að taka ekki sæti nái hann kjöri alfarið vera hans eigin. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir segir ákvörðun Þórðar Snæs Júlíussonar um að taka ekki sæti á lista hafa verið tekna að hans frumkvæði og á hans forsendum. Hún segist bera mikla virðingu fyrir ákvörðuninni og Þórði sjálfum.

Þórður greindi frá ákvörðun sinni á Facebook sinni skömmu fyrir hádegi í dag. 

Ástæðan fyrir henni voru kvenfyrirlitin bloggskrif sem hann hafði skrifaði fyrir tveimur áratugum og voru rifjuð upp í Spursmálum á mbl.is.

Fréttastofa ræddi við Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, um viðbrögð hennar við ákvörðun Þórðar.

Var þetta sameiginleg ákvörðun?

„Þessi ákvörðun var tekin að frumkvæði Þórðar, er algjörlega á hans forsendum og ég virði hana að öllu leyti,“ segir Kristrún.

Hefurðu rætt við hann um þetta?

„Við höfum talað heilmikið saman, gerðum það áður en þetta mál kom upp, og ræddum auðvitað líka saman eftir að þetta kom upp fyrir nokkrum dögum,“ segir hún.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Þórði, hann er góður jafnaðarmaður og félagi og hefur verið góð viðbót við Samfylkinguna.“

Hefur verið rætt um það hvort hann taki að sér önnur störf innan flokksins?

„Það er ekki tímabært að ræða neitt svoleiðis.  Hann er ennþá félagi í Samfylkingunni og er það óháð því hvort hann situr á þingi eða ekki. Við erum með fullt af góðu fólki sem starfar með okkur að alls konar hlutum í sjálfboðaliðastarfi,“ segir hann.

„Þórður er enn góður liðsfélagi þó hann hafi tekið þessa ákvörðun. Við eigum okkur öll pláss einhvers staðar í þessu verkefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×