Í gær fór fram forsýning á hinum vinsælu þáttum IceGuys en yfir áttahundruð manns mættu í Smárabíó þar sem fyrstu tveir þættirnir voru sýndir í heilum þremur bíósölum. Að sögn framleiðenda var mikil gleði og spenna í loftinu og augljóst að hér var um að ræða viðburð sem enginn vildi missa af.
Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir að það hafi verið létt stemmning í Smárabíói fyrir og eftir sýningu og vakti ísskúlptúr sérstaklega athygli bíógesta. Eins og alþjóð veit hafa strákarnir í Iceguys þeir Rúrik, Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór, Jón Jónsson og Aron Can komið, séð og sigrað en þeir rokseldu á jólatónleika nú um jólin svo fátt eitt sé nefnt.
Meðal gesta sem létu sjá sig var Simmi Vill, Birgitta Haukdal, Pálmi Gestsson, Helga Möller og Sverrir Þór Sverrisson svo fáeinir séu nefndir. Hannes Þór Halldórsson leikstjóri þáttanna segir framleiðendur afskaplega þakkláta fyrir góðu viðbrögðin á forsýningunni.
„Samstarf allra sem að þessum þáttum koma, bæði IceGuys sjálfum og öllu fólkinu bak við tjöldin og hjá Símanum hefur verið upp á tíu. Loksins munu þættirnir sjást í stofum landsmanna og ég vona að gleðin og fjörið sem fylgdi framleiðslunni skili sér beint þangað.“
María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans segir um að ræða stærstu forsýningu í sögu Símans. Önnur ísöld sé að hefjast, viðskiptavinir Símans megi eiga von á góðu á sunnudag þegar fyrsti þátturinn fer í loftið.














