Frá fundi Diego er greint á Facebook-síðu dýravinasamtakanna Dýrfinnu, sem sérhæfa sig í að hafa uppi á týndum gæludýrum.

„Við hjá Dýrfinnu ásamt fjölskyldu Diegó erum glöð að segja frá því að hann er fundinn og kominn heim. Vegna aðstoðar ykkar, ábendinga og þrjósku erum við öll búin að koma honum saman heim! Diegó þakkar fyrir ykkur öll og biður spenntur eftir að taka næsta Skeifurúnt,“ segir í færslunni.
Tekinn ófrjálsri hendi úr Skeifunni
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að Diego hafi verið tekinn ófrjálsri hendi í Skeifunni um helgina. Sjónarvottar höfðu séð manneskju ganga inn í verslunina A4 í Skeifunni, þar sem hann heldur gjarnan til, taka hann upp og ganga með hann í Strætó.
„Margir hafa leitað að Diego frá þeim tíma, ekki síst Dýrafinna, en það eru félagasamtök sem hjálpa týndum gæludýrum og eigendum þeirra. Ýmsar ábendingar bárust Dýrfinnu meðan á leitinni stóð og það leiddi til þess að lögreglan fann Diego í heimahúsi i morgun,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Hann hafi í framhaldinu verið færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hann dvaldi í góðu yfirlæti uns honum var komið í hendur eigenda sinna.
„Varla þarf að taka fram að það voru miklir fagnaðarfundir.“
Einn frægasti köttur Íslandssögunnar
Nokkur ár eru síðan Diego hóf að vekja athygli fyrir Skeifuheimsóknir sínar, en í dag er sérstök aðdáendasíða tileinkuð honum á Facebook - hópurinn Spottaði Diego - sem telur um fimmtán þúsund manns.
Fréttastofa tók hús á Diego fyrir nokkrum árum, en þá var hann einmitt staddur í A4, þaðan sem hann var tekinn á dögunum.
Fréttin hefur verið uppfærð.