Samkvæmt síðunni Þingmenn.is voru Diljá Mist Einarsdóttir og Hildur Sverrisdóttir, Sjálfstæðisflokki, Jódís Skúladóttir, VG, og Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, með hundrað prósent mætingu í atkvæðagreiðslur 155. þings, sem lauk 18. nóvember síðastliðinn, og samanstóð af 27 þingfundum frá 10. september.

Þar á eftir koma fjórir þingmenn með 99,4 prósenta mætingu hver. Það eru Sjálfstæðismennirnir Birgir Ármannsson og Óli Björn Kárason, VG-liðinn Orri Páll Jóhannsson og Gísli Rafn Ólafsson. Með 98,8 prósent mætingu eru svo Bjarni Benediktsson og Bryndís Haraldsdóttir, Sjálfstæðisflokki.
Miðflokksmenn báðir á tossalistanum
Á hinum enda mætingarlistans er einn þingmaður sem mætti ekki í neina atkvæðagreiðslu. Það er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Áður hefur verið fjallað um dræma mætingu Sigmundar í þingið, til að mynda þegar þingmaður Pírata sagði hann fínasta sessunaut þar sem hann mætti svo sjaldan.
Fast á eftir Sigmundi fylgir annar formaður stjórnarandstöðuflokks. Það er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, en hún er með 0,6 prósent mætingu í atkvæðagreiðslur á síðasta þingi, samkvæmt samantektinni. Næsti maður á eftir er Birgir Þórarinsson, Sjálfstæðisflokki, með 9,3 prósent mætingu í atkvæðagreiðslur. Bergþór Ólason, eini samflokksmaður Sigmundar á þingi, er með 20,4 prósent mætingu í atkvæðagreiðslur, en Þorgjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar er næst á lista með 21 prósents mætingu.
