Maðurinn var ákærður fyrir tilraun til fjársvika. Honum var gefið að sök að hafa í félagi við annan mann sett umferðarslys á svið á gatnamótum Breiðhellu og Gjáhellu þann 5. apríl 2021. Það hafi verið til þess að svíkja út vátryggingabætur á grundvelli kaskótryggingar og lögboðinnar ökutækjatryggingar ökutækisins hjá Vátryggingafélagi Íslands vegna skemmda á tveimur bílum.
Í ákæru segir að annar maðurinn hafi ekið bíl norður Gjáhellu og stöðvað akstur við gatnamótin við Breiðhellu í um það bil fjörutíu sekúndur, þar til hann ók bifreiðinni hægt í veg fyrir bíl sem hinn maðurinn ók norðvestur Breiðhellu. Bílarnir rákust á hvorn annan á gatnamótunum.
Mennirnir tveir undirrituðu tjónstilkynningu sama dag og sendi annar þeirra tryggingafélagi tilkynningu í tölvupósti samdægurs.
Með þessu voru þeir sagðir hafa með blekkingum ætlað að fá tryggingafélagið til að bæta tjónið sem var samtals 1,2 milljónir króna.
Í fyrstu var málið tekið fyrir sem eitt, með ákæru á hendur báðum mönnunum. En annar þeirra, sá sem nú er sakfelldur, mætti ekki fyrir dóm þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir dómstólsins til að fá hann til að hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi. Málið var því slitið í sundur.
Sá sem mætti játaði sök og dæmdi héraðsdómur í máli hans.
Hinn maðurinn er samkvæmt lögbirtingablaðinu með lögheimili í Ítalíu. Þar sem hann var ekki viðstaddur var ákveðið að dæma í málinu að honum fjarverandi.
Brot hans þóttu sönnuð með játningu hins mannsins. Líkt og áður segir hlaut hann tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm.