Hún segir að miðað við niðurstöðurnar megi ætla að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu flokkshollari en kjósendur hinna ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænna og Framsóknar, sem misstu mun meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn í kosningunum. Framsóknarflokkurinn endaði með 7,8 prósenta fylgi og fimm þingmenn og Vinstri græn eru horfin af þingi með 2,3 prósenta fylgi en voru með átta þingmenn.
Þá segir hún formann Sjálfstæðisflokksins reyndan stjórnmálamann og að kosningabarátta flokksins hafi gengið vel. Miðflokkurinn hafi veitt flokknum samkeppni síðustu vikur og mánuði en fataðist flugið á síðustu metrunum. Þá hafi fylgið aftur ratað til Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hafi líka tapað fylgi til Viðreisnar.
„En það vannst varnarsigur,“ segir Stefanía en að á sama tíma sé þetta lakasta frammistaða flokksins í kosningum hingað til.
Kristrún verði að hafa eitthvað að sýna
Formenn flokkanna fara allir á fund forseta á morgun. Stefanía segir að forsetinn muni ræða við frambjóðendur um þeirra sýn og hvort þau sjái fram á að mynda meirihluta.
„Kristrún verður að sýna fram á, til dæmis, að hún telji líklegt að Viðreisn og Flokkur fólksins séu tilbúin með henni í vegferð,“ segir hún og að það sé nokkuð líkleg niðurstaða eftir fund formannanna með forsetanum á morgun.
Það þurfi þó ekki að þýða að það verði lokaniðurstaðan. Sama yrði að gilda um Bjarna en sá möguleiki sé ekki í hendi alveg strax vegna þess að boltinn er hjá Viðreisn.
Flokkur fólksins hafi gefið út að þau vilji fara í ríkisstjórn með Samfylkingu og Viðreisn en að Viðreisn þurfi að spila leikinn þannig að þau reyni að fá fram sem mest af sínum stefnumálum án þess þó að gefa of mikið eftir.
Formennirnir halda á fund forseta í fyrramálið. Kristrún Frostadóttir er fyrst klukkan 9.