„Við vöknuðum hérna eldsnemma í morgun og ætluðum að tygja okkur upp á Goodison park, en kíktum á miðlana og sjáum að leiknum hefur hreinlega verið frestað,“ segir Sæmundur Jón Jónsson sem staddur er í Liverpool borg ásamt konu sinni Guðlaugu Elísabetu Ólafsdóttur.

„Við vorum reyndar búin að sjá þessar veðurviðvaranir, rauð veðurviðvörun í Liverpool. Maður hélt náttúrulega að það væri bara af því að við værum að fara að vinna stórsigur á Everton.“
Sæmundur efast um að leikurinn verði spilaður á meðan þau hjón verði stödd ytra, enda stíft prógram framundan hjá Liverpool-mönnum sem hafa verið í fantaformi að undanförnu og unnið hvern leik á fætur öðrum með nýjan þjálfara í broddi fylkingar, hollendinginn Arne Slot.
„Við vorum nú svo heppin samt, höfum verið hér í rúmlega viku og sáum frábæran leik gegn City. Svo skelltum við okkur í menningarferð til Newcastle og sáum þar æsispennandi leik“


Spáð er stormi í dag þar en vindur mælist nú um 13 metrar á sekúndu, nokkuð sem Íslendingar myndu líklega bara láta sig hafa. Þess ber þó að geta að hellirignt hefur síðustu daga og líklegt að völlurinn sé morandi í pollum.
„Núna er verið að kveðja Goodison og þetta var svona draumaleikurinn, að fara og vera á síðasta derby-leiknum á Goodison. Þannig þetta eru bara verulega mikil vonbrigði. En sem betur fer er Liverpool bara frábær borg,“ segir Guðlaug Elísabet. Þau deyja því ekki ráðalaus.
„Við reiknum með að finna einhvern góðan pöbb hér í Liverpool og horfa á Crystal Palace og væntanlega Nottingham Forest. Þetta eru liðin sem eru að spila við Manchester-liðin, þannig við höldum auðvitað með Crystal Palace og Nottingham Forest.“
