Sport

„Ég er einum heimsmeistaratitli frá því að jafna ferilinn hans“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luke Humphries skaut föstum skotum á Peter Wright.
Luke Humphries skaut föstum skotum á Peter Wright. Ben McShane/Sportsfile via Getty Images

Luke Humphries, ríkjandi heimsmeistari í pílukasti, mætir tvöfalda heimsmeistaranum Peter Wright þegar 16-manna úrslitin á HM í pílu hefjast á morgun. Sá fyrrnefndi skaut föstum skotum á Wright á blaðamannafundi í dag.

Humphries vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil á síðasta heimsmeistaramóti eftir sigur gegn nafna sínum, Luke Littler, í úrslitum. Þeir tveir hafa á síðustu tveimur árum verið að taka yfir píluheiminn og eru þannig að taka við af þeim sem eldri eru, eins og Peter Wright.

Peter „Snakebite“ Wright, sem er orðinn 54 ára gamall, hefur þó sýnt að eldri pílukastararnir hafa enn nóg fram að færa og varð heimsmeistari í tvígang á síðustu fjórum árum, árin 2020 og 2022. 

Hinn 29 ára gamli Humphries gefur þó lítið fyrir afrek Wrights og segist vera aðeins einum heimsmeistaratitli frá því að jafna feril hans. Þrátt fyrir að vera vel á þriðja áratug yngri.

„Ég held að Peter hafi gaman að því að vera í sálfræðistríði, en það virkar ekki á mig,“ sagði Humphries á blaðamannafundinum.

„Ég er einum heimsmeistaratitli frá því að jafna ferilinn hans og ég er 25 árum yngri. Þannig að ég held að ef ég vinn einn heimsmeistaratitil í viðbót þá sé ég búinn að jafna allt sem hann hefur afrekað á öllum sínum ferli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×