Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir heilbrigðisyfirvöldum á Gasa. Þau lýstu yfir áhyggjum af Hussam Abu Safiya, forstjóra Kamal Adwan sjúkrahússins, eftir að starfsmenn sem látnir hafa verið lausir sögðu hann hafa orðið fyrir ofbeldi í haldi Ísraela.
Ísraelsher grunar þá sem enn eru í haldi um að vera vígamenn Hamas, og að í sjúkrahúsinu sé stjórnstöð vegna aðgerða samtakanna. Hamas hafnaði ásökununum í gær og sagði enga vígamenn hafa dvalið í sjúkrahúsinu.
Í yfirlýsingu sem Hamas birti í dag var gert ákall til Sameinuðu þjóðanna um að grípa inn í og vernda þau sjúkrahús sem eftir standa á Gasa. Þá kölluðu samtökin eftir því að eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna yrðu sendir á sjúkrahúsin til að sannreyna staðhæfingar Hamas um að vígamenn samtakanna starfi ekki innan þeirra.
WHO verulega áhyggjufull
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birti færslu á X þar sem kemur fram að eftir áhlaupið hafi sjúkrahúsinu, sem var eina starfrækta heilbrigðisstofnunin í Norðurhluta Gasa, verið lokað. Hermenn Ísraelshers hafi kveikt í og eyðilagt nokkrar mikilvægustu deildir sjúkrahússins.
Sjúklingar hafi þurft að rýma sjúkrahúsið þegar áhlaupið var gert og verið færðir á sjúkrahús sem búið er að eyðileggja. Stofnunin hafi verulegar áhyggjur af öryggi þeirra. Um sextíu heilbrigðisstarfsmenn og 25 sjúklingar hafi verið eftir á Kamal Adwan sjúkrahúsinu.
Reuters hefur eftir Ísraelsher að 350 sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn hafi rýmt sjúkrahúsið fyrir aðgerðina og að 95 hafi verið færðir yfir á hitt sjúkrahúsið meðan á henni stóð. Rýmingarnar hafi verið framkvæmdar í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld á Gasa.