Þetta segir Hörður Lillendahl, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglu, í samtali við Vísi um umferðina á höfuðborgarsvæðinu í dag. Snjóþekja og skafrenningur setti svip sinn á borgina í morgun og var færðinni ábótavant vegna þessa þegar höfuðborgarbúar gerðu sig búna til ferðar í morgunsárið.
Búist er við að veður versni aftur í kvöld og í fyrramálið og er biðlað til vegfarenda að hafa varann á. Fjögur til fimm umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar í morgun. Meirihluti þeirra sem lendi í minniháttar óhöppum leiti til arekstur.is en ekki lögreglunnar.
Spurður hvort ökumenn hafi farið óvarlega í umferðinni í dag segir Hörður:
„Það hafa ekki verið neinir harðir árekstrar. Við höfðum afskipti af einum sem að var á fjórhjóladrifnum bíl og hann var út um allt. Hann var að keyra óvarlega og var að keyra hratt. Hann var á vitlausum stað í rauninni.“
Hann segir þó að flestir fái ekki tækifæri til að aka of hratt og bendir á að oft myndist umferðarteppa þegar veðrið er með þessum hætti. Illa útbúnir bílar á verri dekkjum en aðrir hægi þá á umferðinni.
„Þeir eru þá bara fastir í einhverri röð. Fólk er kannski ekki á sumardekkjum en menn eru kannski á heilsársdekkjum og svo gleyma þeir að þvo tjöruna af og þá verða þessi dekk ansi sleip, það er mjög gott að fá sér tjöruhreinsi og setja á dekkin og þá verða þau miklu stamari og skemmtilegri. Það eru mjög margir sem gleyma því og eru þá eins og beljur á svelli.“
Eru einhver skilaboð sem þú myndir vilja koma áleiðis til vegfarenda fyrir morgundaginn?
„Bara að fara varlega og fara hægt yfir. Hraðinn er okkar mesti óvinur í þessum aðstæðum. Ég vil brýna fyrir fólki að sýna þolinmæði. Það eru náttúrulega áramót, áfengi og akstur fer aldrei saman og það er gott að hnykkja á því. “