Barist um arfinn í Borgó Símon Birgisson skrifar 3. janúar 2025 07:00 Köttur á heitu blikkþaki. Borgarleikhúsið, frumsýning 28. desember 2024. Borgarleikhúsið Köttur á heitu blikkþaki er magnþrungið leikverk eftir Tennessee Williams sem fjallar um fjölskyldu á krossgötum, valdabaráttu, lygar og sannleika. Verkið er einnig umdeilt þar sem það snertir á viðkvæmu efni um samkynhneigð og hefur leiktextanum verið breytt eða hann ritskoðaður í gegnum tíðina. Í Borgarleikhúsinu er engum hlíft – beittur textinn nýtur sín í meðförum frábærra leikara og í hnitmiðaðri leikstjórn eins af okkar bestu leikstjórum. Af stóra sviðinu í stofuna Þorleifur Örn Arnarsson leikstýrir verkinu en hann er íslenskum leikhúsgestum vel kunnur. Ég vann sjálfur með honum á fyrri hluta leikhúsferils hans og þekki því vel til verka hans og aðferðarfræði. Hann hefur leikstýrt fjölda sýninga í hinum þýskumælandi leikhúsheimi, unnið ein virtustu leikhúsverðlaun Þýskalands og verið yfirmaður leikhúsmála við Volksbuhne leikhúsið í Berlín. Hér á Íslandi sló Þorleifur í gegn með Englum alheimsins í Þjóðleikhúsinu árið 2015 og hefur síðan þá sett á svið fjölmargar sýningar sem eiga það sammerkt að vera stórar í sniðum. Þess vegna er áhugavert að Þorleifur breytir hér algjörlega um kúrs. Hann færir sig á litla hringsviðið í Borgarleikhúsinu og í stað þess að búa til sýningu og skrifa sjálfur (líkt og í Njálu, Álfaborginni, Guð blessi Ísland og Eddu t.d) tekst hann hér á við klassískan leikhústexta. Það er stundum sagt að listamenn þurfi á hindrunum að halda til að hæfileikar þeirra njóti sín til fulls og kannski hefur sá stífi rammi sem litla sviðið býður upp á gert það að verkum að við sjáum nýjar hliðar á honum sem leikstjóra. Hér fá hæfileikar Þorleifs í vinnu með leikaranum að njóta sín og hann fær leikarana til að ganga aukaskrefið, ögra sér og áhorfendum. Uppsetningarlega lætur Þorleifur verkið gerast í einu svefnherbergi og leikararnir sitja með áhorfendum og brjóta stundum hinn svokallaða fjórða vegg. Þessi uppbrot eru hófleg, ganga upp og skyggja ekki á kjarna verksins. Þrátt fyrir að sýningin beri virðingu fyrir frumtextanum er hún á engan hátt gamaldags eða íhaldssöm – þvert á móti ögrar hún og snertir við áhorfendum á hátt sem Tennessee Williams væri örugglega sáttur við. Katla Margrét Þorgeirsdóttir nálgaðist hlutverk eiginkonu Stóra pabba á kómískan hátt en sló þó einnig á tilfinningastrengi, segir Símon Birgisson meðal annars í gagnrýni sinni á Ketti á heitu blikkþaki.Borgarleikhúsið Ritskoðað leikrit Köttur á heitu blikkþaki er verk sem hefur í gegnum tíðina verið breytt og ritskoðað. Í frægri kvikmynd með Paul Newman og Elizabeth Taylor var þriðja þætti verksins breytt til muna og þema verksins um samkynhneigð hreinlega strikað út. Höfundurinn var ósáttur við breytingarnar og taldi um afturför að ræða í Hollywood að þora ekki að takast á við þetta efni. Aðalpersónur verksins eru þau Brick og Maggie sem tilheyra sundraðri fjölskyldu hins forríka Stóra Pabba – plantekrueiganda í Suðurríkjunum, milljónamæringi sem stjórnar bæði fyrirtækinu og ættarveldinu með ofbeldi og ótta. Fjölskyldan hefur fengið veður af því að Stóri pabbi sé kominn með krabbamein og því hefst tilheyrandi valdabarátta um hver fær ættarveldið í arf. Þessa sögu þekkja íslenskir áhorfendur ágætlega úr nýlegum þáttum á borð við Succession og Yellowstone. Báðar þessar seríur takast á við sömu hugmynd – einhverskonar „stóran pabba“ sem hefur komist á toppinn á eigin verðleikum en tekst nú á við eigin dauðleika og fjölskyldu sem bíður eftir að taka völdin. Og þeir sem eru við völd vilja sjaldnast láta þau eftir. Í Ketti á heitu blikkþaki er það stóri bróðir Brick, Gubbert og eiginkona hans, sem telja sig eiga tilkall til fjölskyldufyrirtækisins. Þau líta niður á Brick sem er fyrrverandi atvinnumaður í amerískum fótbolta en orðinn þunglyndur alkahólisti, niðurbrotinn eftir sjálfsmorð besta vinar síns og mögulega elskhuga. Hann er giftur Maggie sem tilheyrir ekki samfélagi hinna forríku og lýsir sér sem ketti á heitu blikkþaki. Þau eru barnslaus og sú staðreynd er notuð gegn þeim í þeirra baráttu sem fram fer eftir að fréttirnir um krabbamein Stóra pabba berast fjölskyldunni. Stórir leikarar Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk Stóra pabba og gerir það virkilega vel. Hann er með ógnvekjandi nærveru á sviðinu, í hans meðförum verður persónan bæði ofbeldisfull og aumkunarverð. Hilmir er ekki oft í hlutverki ilmennisins en hann virðist njóta þess í sýningunni. Stóri pabbi er sá eini sem veit ekki að hann er dauðvona og Hilmir túlkar hroka hans og umkomuleysi á magnaðan hátt. Hilmir leikur Stóra pabba stórt og sýningin þarf á því að halda. Katla Margrét Þorgeirsdóttir nálgaðist hlutverk eiginkonu Stóra pabba á kómískan hátt en sló þó einnig á tilfinningastrengi, sérstaklega í síðustu senunni fyrir hlé – afmælisveislunni - sem var vel útfærð. Hákon Jóhannesson lék Gúbbert, bróður Brick, og Heiðdís Hlynsdóttir eiginkonu hans. Þau túlkuðu græðgi þeirra og baráttu fyrir brauðbitunum vel. Hákon er leikari sem er spennandi að fylgjast með. Halldór Gylfason var í litlu hlutverki sem prestur fjölskyldunnar og sálusorgari – átti skemmtilegar innkomur og létti á stundum á þrúgandi stemningunni í salnum. Stjarna sýningarinnar var hins vegar Ásthildur Úa Sigurðardóttir í hlutverki Maggie. Þetta er marglaga og áhugaverð persóna sem þarf að berjast fyrir tilveru sinni meðal hákarlanna í fjölskyldunni. Hún veit að hún tilheyrir ekki en leggur allt í sölurnar til að tryggja afkomu sína. Hún er tilbúin að ljúga ef það er það sem þarf og setur ekki fyrir sig þó Brick loki á hana og elski ekki í raun og veru. Ásthildur hafði sterka nærveru og fór vel með textann. Það mæðir mikið á henni í löngu upphafsatriði en hún hafði salinn í lófa sér og á hrós skilið fyrir frammistöðuna. Kannski er Sigurður aðeins of ungur í þessa rullu. Hann tilheyrir kynslóð sem hefur eflaust drukkið meira Nocco en viskí og er ansi langt frá því að túlka trúverðuga fyllibyttu, segir meðal annars í gagnrýninni.Borgarleikhúsið Veikasti hlekkurinn Sama verður ekki sagt um Sigurð Ingvarsson í hlutverki Brick. Hann er veikasti hlekkur sýningarinnar og nær ekki að gera persónuna trúverðuga. Hann skortir þá stærð sem þetta aðalhlutverk krefst af honum. Brick í meðförum Sigurðar minnir meira á ungling sem nennir ekki fram úr rúminu og vill bara fá að vera í friði fremur en mann sem drekkur til að gleyma. Kannski er Sigurður aðeins of ungur í þessa rullu. Hann tilheyrir kynslóð sem hefur eflaust drukkið meira Nocco en viskí og er ansi langt frá því að túlka trúverðuga fyllibyttu á sama hátt og pabbi hans Ingvar E. Sigurðsson og Baltasar Kormákur gerðu sem Baddi og Grjóni í Djöflaeyjunni til að mynda. Það hefði verið gaman að sjá reynslumeiri leikara takast á við Brick – einhvern sem hefði getað túlkað þunglyndi hans, sorg og eftirsjá og flótta í flöskuna af meiri alvöru og þunga. Sterkur heildarsvipur Þegar klassísk verk eru sett upp má alltaf spyrja af hverju? Hvaða erindi eiga þessi verk við okkur í dag. Þræðirnir í Ketti á heitu blikkþaki um valdabaráttu og fjölskylduauð hafa ekkert minna vægi á Íslandi í dag þar sem peningar safnast sífellt á færri hendur. Svo er það þemað um samkynhneigð sem maður gæti afskrifað og sagt úrelt – lifum við ekki á tímum umburðarlyndis og kærleika? Samt er það staðreynd að afar fáir karlkyns íþróttamenn í boltaíþróttum koma út úr skápnum og þegar þeir gera það er það yfirleitt eftir að ferli þeirra lýkur. Þrátt fyrir að verkið sé skrifað á síðustu öld og gerist í Suðurríkjunum eiga hugmyndir þess um karlmennsku, sannleika, lygar og ást algjörlega við í dag. Köttur á heitu blikkþaki í uppsetningu Þorleifs er firnasterk sýning. Sú leið leikstjórans að láta verkið gerast allt í einu svefnherbergi og hafa leikarana meðal áhorfanda gengur vel upp. Það er borin virðing fyrir frumtextanum án þess að sýningin teljist hefðbundin eða íhaldssöm. Sviðmyndin (Erna Mist) er töff og draumkennd og þýðingin skemmtilega nútímaleg. Leikararnir standa sig flestir vel en Ásthildur Úa og Hilmir Snær bera uppi sýninguna og verður áhugavert að fylgjast með Ásthildi í framtíðinni. Hún er alvöru leikkona, stjarna sýningarinnar, og á framtíðina fyrir sér. Gagnrýni Símonar Birgissonar Leikhús Menning Mest lesið Getuleysi á stóra sviðinu Gagnrýni Opið samband fer úrskeiðis Lífið Gervifullnægingar og lélegt kynlíf tilheyri 2024 Lífið Segir Gunna hafa verið skipstjórann í brúnni Tónlist Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Lífið Sigurtilfinning eftir báðar fæðingar Makamál Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Lífið Guðmundur í Brim nældi í treyjuna Lífið Benni Boga og Úlla seldu húsið á 219 milljónir Lífið Fleiri fréttir Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Í Borgarleikhúsinu er engum hlíft – beittur textinn nýtur sín í meðförum frábærra leikara og í hnitmiðaðri leikstjórn eins af okkar bestu leikstjórum. Af stóra sviðinu í stofuna Þorleifur Örn Arnarsson leikstýrir verkinu en hann er íslenskum leikhúsgestum vel kunnur. Ég vann sjálfur með honum á fyrri hluta leikhúsferils hans og þekki því vel til verka hans og aðferðarfræði. Hann hefur leikstýrt fjölda sýninga í hinum þýskumælandi leikhúsheimi, unnið ein virtustu leikhúsverðlaun Þýskalands og verið yfirmaður leikhúsmála við Volksbuhne leikhúsið í Berlín. Hér á Íslandi sló Þorleifur í gegn með Englum alheimsins í Þjóðleikhúsinu árið 2015 og hefur síðan þá sett á svið fjölmargar sýningar sem eiga það sammerkt að vera stórar í sniðum. Þess vegna er áhugavert að Þorleifur breytir hér algjörlega um kúrs. Hann færir sig á litla hringsviðið í Borgarleikhúsinu og í stað þess að búa til sýningu og skrifa sjálfur (líkt og í Njálu, Álfaborginni, Guð blessi Ísland og Eddu t.d) tekst hann hér á við klassískan leikhústexta. Það er stundum sagt að listamenn þurfi á hindrunum að halda til að hæfileikar þeirra njóti sín til fulls og kannski hefur sá stífi rammi sem litla sviðið býður upp á gert það að verkum að við sjáum nýjar hliðar á honum sem leikstjóra. Hér fá hæfileikar Þorleifs í vinnu með leikaranum að njóta sín og hann fær leikarana til að ganga aukaskrefið, ögra sér og áhorfendum. Uppsetningarlega lætur Þorleifur verkið gerast í einu svefnherbergi og leikararnir sitja með áhorfendum og brjóta stundum hinn svokallaða fjórða vegg. Þessi uppbrot eru hófleg, ganga upp og skyggja ekki á kjarna verksins. Þrátt fyrir að sýningin beri virðingu fyrir frumtextanum er hún á engan hátt gamaldags eða íhaldssöm – þvert á móti ögrar hún og snertir við áhorfendum á hátt sem Tennessee Williams væri örugglega sáttur við. Katla Margrét Þorgeirsdóttir nálgaðist hlutverk eiginkonu Stóra pabba á kómískan hátt en sló þó einnig á tilfinningastrengi, segir Símon Birgisson meðal annars í gagnrýni sinni á Ketti á heitu blikkþaki.Borgarleikhúsið Ritskoðað leikrit Köttur á heitu blikkþaki er verk sem hefur í gegnum tíðina verið breytt og ritskoðað. Í frægri kvikmynd með Paul Newman og Elizabeth Taylor var þriðja þætti verksins breytt til muna og þema verksins um samkynhneigð hreinlega strikað út. Höfundurinn var ósáttur við breytingarnar og taldi um afturför að ræða í Hollywood að þora ekki að takast á við þetta efni. Aðalpersónur verksins eru þau Brick og Maggie sem tilheyra sundraðri fjölskyldu hins forríka Stóra Pabba – plantekrueiganda í Suðurríkjunum, milljónamæringi sem stjórnar bæði fyrirtækinu og ættarveldinu með ofbeldi og ótta. Fjölskyldan hefur fengið veður af því að Stóri pabbi sé kominn með krabbamein og því hefst tilheyrandi valdabarátta um hver fær ættarveldið í arf. Þessa sögu þekkja íslenskir áhorfendur ágætlega úr nýlegum þáttum á borð við Succession og Yellowstone. Báðar þessar seríur takast á við sömu hugmynd – einhverskonar „stóran pabba“ sem hefur komist á toppinn á eigin verðleikum en tekst nú á við eigin dauðleika og fjölskyldu sem bíður eftir að taka völdin. Og þeir sem eru við völd vilja sjaldnast láta þau eftir. Í Ketti á heitu blikkþaki er það stóri bróðir Brick, Gubbert og eiginkona hans, sem telja sig eiga tilkall til fjölskyldufyrirtækisins. Þau líta niður á Brick sem er fyrrverandi atvinnumaður í amerískum fótbolta en orðinn þunglyndur alkahólisti, niðurbrotinn eftir sjálfsmorð besta vinar síns og mögulega elskhuga. Hann er giftur Maggie sem tilheyrir ekki samfélagi hinna forríku og lýsir sér sem ketti á heitu blikkþaki. Þau eru barnslaus og sú staðreynd er notuð gegn þeim í þeirra baráttu sem fram fer eftir að fréttirnir um krabbamein Stóra pabba berast fjölskyldunni. Stórir leikarar Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk Stóra pabba og gerir það virkilega vel. Hann er með ógnvekjandi nærveru á sviðinu, í hans meðförum verður persónan bæði ofbeldisfull og aumkunarverð. Hilmir er ekki oft í hlutverki ilmennisins en hann virðist njóta þess í sýningunni. Stóri pabbi er sá eini sem veit ekki að hann er dauðvona og Hilmir túlkar hroka hans og umkomuleysi á magnaðan hátt. Hilmir leikur Stóra pabba stórt og sýningin þarf á því að halda. Katla Margrét Þorgeirsdóttir nálgaðist hlutverk eiginkonu Stóra pabba á kómískan hátt en sló þó einnig á tilfinningastrengi, sérstaklega í síðustu senunni fyrir hlé – afmælisveislunni - sem var vel útfærð. Hákon Jóhannesson lék Gúbbert, bróður Brick, og Heiðdís Hlynsdóttir eiginkonu hans. Þau túlkuðu græðgi þeirra og baráttu fyrir brauðbitunum vel. Hákon er leikari sem er spennandi að fylgjast með. Halldór Gylfason var í litlu hlutverki sem prestur fjölskyldunnar og sálusorgari – átti skemmtilegar innkomur og létti á stundum á þrúgandi stemningunni í salnum. Stjarna sýningarinnar var hins vegar Ásthildur Úa Sigurðardóttir í hlutverki Maggie. Þetta er marglaga og áhugaverð persóna sem þarf að berjast fyrir tilveru sinni meðal hákarlanna í fjölskyldunni. Hún veit að hún tilheyrir ekki en leggur allt í sölurnar til að tryggja afkomu sína. Hún er tilbúin að ljúga ef það er það sem þarf og setur ekki fyrir sig þó Brick loki á hana og elski ekki í raun og veru. Ásthildur hafði sterka nærveru og fór vel með textann. Það mæðir mikið á henni í löngu upphafsatriði en hún hafði salinn í lófa sér og á hrós skilið fyrir frammistöðuna. Kannski er Sigurður aðeins of ungur í þessa rullu. Hann tilheyrir kynslóð sem hefur eflaust drukkið meira Nocco en viskí og er ansi langt frá því að túlka trúverðuga fyllibyttu, segir meðal annars í gagnrýninni.Borgarleikhúsið Veikasti hlekkurinn Sama verður ekki sagt um Sigurð Ingvarsson í hlutverki Brick. Hann er veikasti hlekkur sýningarinnar og nær ekki að gera persónuna trúverðuga. Hann skortir þá stærð sem þetta aðalhlutverk krefst af honum. Brick í meðförum Sigurðar minnir meira á ungling sem nennir ekki fram úr rúminu og vill bara fá að vera í friði fremur en mann sem drekkur til að gleyma. Kannski er Sigurður aðeins of ungur í þessa rullu. Hann tilheyrir kynslóð sem hefur eflaust drukkið meira Nocco en viskí og er ansi langt frá því að túlka trúverðuga fyllibyttu á sama hátt og pabbi hans Ingvar E. Sigurðsson og Baltasar Kormákur gerðu sem Baddi og Grjóni í Djöflaeyjunni til að mynda. Það hefði verið gaman að sjá reynslumeiri leikara takast á við Brick – einhvern sem hefði getað túlkað þunglyndi hans, sorg og eftirsjá og flótta í flöskuna af meiri alvöru og þunga. Sterkur heildarsvipur Þegar klassísk verk eru sett upp má alltaf spyrja af hverju? Hvaða erindi eiga þessi verk við okkur í dag. Þræðirnir í Ketti á heitu blikkþaki um valdabaráttu og fjölskylduauð hafa ekkert minna vægi á Íslandi í dag þar sem peningar safnast sífellt á færri hendur. Svo er það þemað um samkynhneigð sem maður gæti afskrifað og sagt úrelt – lifum við ekki á tímum umburðarlyndis og kærleika? Samt er það staðreynd að afar fáir karlkyns íþróttamenn í boltaíþróttum koma út úr skápnum og þegar þeir gera það er það yfirleitt eftir að ferli þeirra lýkur. Þrátt fyrir að verkið sé skrifað á síðustu öld og gerist í Suðurríkjunum eiga hugmyndir þess um karlmennsku, sannleika, lygar og ást algjörlega við í dag. Köttur á heitu blikkþaki í uppsetningu Þorleifs er firnasterk sýning. Sú leið leikstjórans að láta verkið gerast allt í einu svefnherbergi og hafa leikarana meðal áhorfanda gengur vel upp. Það er borin virðing fyrir frumtextanum án þess að sýningin teljist hefðbundin eða íhaldssöm. Sviðmyndin (Erna Mist) er töff og draumkennd og þýðingin skemmtilega nútímaleg. Leikararnir standa sig flestir vel en Ásthildur Úa og Hilmir Snær bera uppi sýninguna og verður áhugavert að fylgjast með Ásthildi í framtíðinni. Hún er alvöru leikkona, stjarna sýningarinnar, og á framtíðina fyrir sér.
Gagnrýni Símonar Birgissonar Leikhús Menning Mest lesið Getuleysi á stóra sviðinu Gagnrýni Opið samband fer úrskeiðis Lífið Gervifullnægingar og lélegt kynlíf tilheyri 2024 Lífið Segir Gunna hafa verið skipstjórann í brúnni Tónlist Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Lífið Sigurtilfinning eftir báðar fæðingar Makamál Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Lífið Guðmundur í Brim nældi í treyjuna Lífið Benni Boga og Úlla seldu húsið á 219 milljónir Lífið Fleiri fréttir Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira