Enski boltinn

Miðvörður Chelsea illa meiddur enn á ný

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fofana hefur ekki spilað síðan Chelsea lagði Aston Villa þann 1. desember síðastliðinn.
Fofana hefur ekki spilað síðan Chelsea lagði Aston Villa þann 1. desember síðastliðinn. EPA-EFE/DAVID CLIFF

Franski miðvörðurinn Wesley Fofana gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Chelsea á leiktíðinni. Þessu greindi Enzo Maresca, þjálfari liðsins, frá á blaðamannafundi fyrir leik Chelsea um helgina.

Fofana hefur ekki spilað síðan hann var tekinn af velli í 3-0 sigri á Aston Villa í byrjun desember. Maresca gat ekki sagt hvort Fofana þyrfti að fara undir hnífinn en ljóst er að þetta er mikið högg fyrir leikmann sem var ekkert með á síðustu leiktíð vegna hnémeiðsla.

„Því miður gæti hann verið frá keppni það sem eftir lifir tímabils. Við vitum þó ekki nákvæmlega hversu lengi það verður,“ sagði Maresca.

Fofana hefur verið mikið meiddur síðan Chelsea gerði hann að einum dýrasta varnarmanni heims árið 2022. Hann spilaði aðeins 15 leiki á tímabilinu 2022-23 og var svo frá keppni allt tímabilið 2023-24. Nú stefnir í að hann verði frá keppni það sem eftir lifir þessa tímabils.

Chelsea heimsækir Crystal Palace á laugardag. Liðið situr í 4. sæti að loknum 19 umferðum með 35 stig, tíu stigum minna en topplið Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×