Juan Merchan dómari, sem stýrði réttarhöldum í máli Donalds Trump tilkynnti í gær að dómsuppkvaðning í málinu fari fram þann 10. janúar, rúmri viku áður en Trump snýr aftur í Hvíta húsið.
Í ákvörðun Merchan kemur fram að dómurinn feli að öllum líkindum ekki í sér fangelsisvist þar sem saksóknarar meti slíka refsingu ekki framkvæmanlega. AP fjallar um málið.
Kviðdómur í New York sakfelldi Donald Trump í maí fyrir að falsa skjöl til þess að hylma yfir greiðslur til klámstjörnu fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Dómsuppkvaðning átti upprunalega að fara fram í júlí en var frestað tvisvar sinnum að beiðni lögmanna Trump.
Eftir sigur Trump í forsetakosningunum frestaði Merchan dómsuppkvaðningunni um ótilgreindan tíma. Lögmenn hans fóru þá fram á að sakfelling Trump yrði felld niður á þeim forsendum að hún myndi fela í sér truflanir á forsetaembættinu sem færi gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarinn féllst ekki á þá kröfu og sagði að búist væri við að Trump yrði viðstaddur dómsuppkvaðninguna.
Fram kom í ákvörðun Merchan að tækast væri að veita Trump lausn, án fangelsis, sektar, skilorðs eða annarrar refsingar. Líklega yrði dæmt á þann veg, þá til þess eins að loka málinu.
Þrátt fyrir það væri dómsuppkvaðningin til marks um að Bandaríkin væru í þann mund að setja dæmdan glæpamann inn í forsetaembættið.