Árlega við upphaf nýs árs fer fram uppboð á risavöxnum túnfiskum í borginni Tokyo í Japan þar sem veitingahúsaeigendur og aðrir keppast við að tryggja sér stærsta og vænlegasta túnfiskinn. Breska dagblaðið Guardian greinir frá.
Í ár voru það veitingamenn frá Onodera hópnum sem sérhæfa sig í sushi-gerð og eru sumir hverjir með Michelin-stjörnu á bakinu sem tryggðu sér stærsta túnfisk uppboðsins en hann er jafnframt næstdýrasti fiskurinn til að seljast á uppboðinu. Fiskurinn var á stærð við mótorhjól. Dýrasti fiskurinn seldist á 333,6 milljón jen fyrir sex árum síðan.
Þessi venja að koma saman á uppboði og keppast um stærsta túnfiskinn hefur staðið yfir um margra áratugaskeið í höfuðborg Japan. Onodera hópurinn hefur verslað dýrasta fiskinn fimm ár í röð sem hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum í austri.
„Fyrsti túnfiskurinn á að veita góða lukku. Okkar vonir eru bundnar við það að fólk muni gæða sér á þessum túnfisk og eiga dásamlegt ár,“ er haft eftir talsmanni Onodera hópsins.