AP og Reuters-fréttastofurnar greina frá andláti Le Pen og vísa til heimildarmanna úr röðum Þjóðfylkingarinnar. Le Pen var einn umdeildast stjórnmálamaður í seinni tíma sögu Frakklands. Hann afneitaði helförinni og hlaut ítrekað dóma fyrir meiðandi ummæli, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Le Pen náði alla leið í aðra umferð forsetakosninganna árið 2002 en tapaði með afgerandi hætti fyrir Jacques Chirac. Hægriöfgamenn hafa ekki komist til valda í Frakklandi frá því að samverkamenn nasista gerðu það í seinna stríði.
Marine Le Pen tók við kyndlinum af föður sínum en þau áttu ekki alltaf skap saman. Le Pen átti á stundum í harðvítugum og opinberum deilum við bæði dóttur sína og fyrrverandi eiginkonu, að sögn Reuters. Ummæli hans um helförina urðu til þess að hann var rekinn úr flokknum árið 2015. Dóttir hans sagði þá að hann hefði ítrekað afneitun sinna á voðaverkunum til þess eins að bjarga sjálfum sér frá því að hverfa í gleymskunnar dá.