Skoðun

Óáreiðan­legar mælingar og mis­vísandi fréttir

Sigurjón Arnórsson skrifar

„Flokkur fólksins nær ekki inn á þing!“ var vinsæl fyrirsögn hjá fjölmiðlum í aðdraganda alþingiskosninganna árið 2021. Könnunarfyrirtækið Maskína birti reglulega kannanir sem spáðu að flokkurinn myndi ekki ná 5% fylgi í kosningunum. Ef svo hefði farið voru nær engar líkur á að flokkurinn fengi kjörinn þingmann. Ýmsir aðilar hvöttu kjósendur til að „sóa ekki atkvæði sínu“ í Flokk fólksins sem myndi hvort eð er ekki ná inn á þing og bentu á því til stuðnings niðurstöður skoðanakannanna Maskínu. Daginn fyrir kjördag mældi Maskína svo Flokk fólksins með 6,1% fylgi en upp úr kjörkössunum fékk flokkurinn hins vegar tæp 9 prósent atkvæða og sex kjördæmakjörna þingmenn. Flokkurinn var því vanmetinn um nær 44% í síðustu könnun Maskínu fyrir kjördag 2021.

Sagan endurtók sig í Alþingiskosningunum 30. nóvember. Daginn fyrir kjördag birti Maskína könnun sem sýndi 9,1% fylgi Flokks fólksins, en upp úr kjörkössunum fékk flokkurinn tæp 14%. Flokkurinn var því vanmetinn um 52%.

Fyrir skömmu birti Maskína fyrstu könnun sína eftir kosningar, þar sem fylgi Flokks fólksins mældist 10,6 prósent, eða 1,5 prósentum hærra en í síðustu könnun fyrir kjördag. Mætti því draga þá ályktun að stuðningur við flokkinn hefði aukist milli mánaða. Fyrirsögn Vísis og fréttastofu Stöðvar 2 var engu að síður: „Flokkur Fólksins dalar eftir kosningar.” En hvernig fékkst þessi fyrirsögn? Jú, nýjasta könnun Maskínu var nefnilega borin saman við það sem Flokkur Fólksins fékk upp úr kjörkössunum.

Engin tilraun var gerð til að benda á raunverulega hækkun á mældu fylgi Flokks fólksins um 1,5 prósent á milli kannana, né var því veitt athygli að Maskína hefur ávallt vanmælt fylgi flokksins stórkostlega. Heldur var ýjað að því að kjósendur flokksins væru ósáttir við flokkinn og stjórnarmyndun.

Það er bráðnauðsynlegt að auka bæði fagleg vinnubrögð mælingaraðila sem teikna ítrekað rammskakka mynd af almenningsáliti og samhliða því draga úr villandi fréttaflutningi. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á því hvernig fyrirsagnir og umfjöllun móta almenningsálit og þjóðfélagsumræðuna og ættu að vanda verulega til verka. Margir kjósendur kjósa nú taktískt, sem gerir það enn varhugaverðara að setja of mikið traust á könnunaraðila eins og Maskínu sem hafa ítrekað sýnt miklar skekkjur – bæði með ofmælingum og vanmælingum á stjórnmálaflokkum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×