Togarinn Björg EA fékk tundurduflið í veiðarfæri sín og kom með það til hafnar á athafnasvæði Útgerðarfélags Akureyrar í gær. Hluti hafnarsvæðisins var rýmt í varúðarskyni.
Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar fór með tundurduflið, sem vó hátt í 150 kíló, og kom því fyrir á því sem er lýst sem öruggu dýpi á hafsbotni í Eyjafirði strax í gær. Ætlunin var að eyða því við birtingu í dag, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Björgunarsveitin Súlur veittu Gæslunni liðsinni við undirbúning í morgun. Kafað var að tundurduflinu og það svo sprengt um klukkan eitt í dag. Aðgerðin er sögð hafa gengið vel.
Hvetur Landhelgisgæslan áhafnir skipa og báta til þess að hafa samband við stjórnstöð Gæslunnar fái þær torkennilega hluti í veiðarfæri sín.
