Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur ræddi um gróðureldana í Kaliforníu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Það er í rauninni gróðureldahætta í Kaliforníu allt árið, en mest utan regntímans, og nú vegna loftlagsbreytinga þá hefur regntíminn verið að styttast í báða enda. Það er búið að vera mjög þurrt og hlýtt lengi og þá eykst hættan. Og núna eru Santa Ana vindarnir, og þeir verða til þess að eldurinn sem kviknar að útbreiðsla hans verður miklu meiri og slökkvistarfið erfiðara.“
Er þetta bein afleiðing loftlagsbreytinga?
„Það er alltaf að segja hvað er bein afleiðing, árið 2024. Þá var það ár aftakaveðurs á mörgum stöðum. Það var bæði úrhellisúrkoma, flóð, en líka hiti, þurrkur, og gróðureldar víða í heimi, bæði í Suður- og Norður-Ameríku, Síberíu og í Evrópu getum við minnst á Portúgal þar sem voru miklir gróðureldir,“ segir Nína.
„Ég held að við ættum að minnsta kosti að undirbúa okkur undir að þetta gæti verið það sem koma skal.“

Að sögn Nínu þurfa Íslendingar að huga að forvörnum þar sem gróður og skógar færast í aukanna hér á landi.
„En það er eitt annað sem þetta byggir á. Eldarnir geta kviknað og veður hefur þar mikil áhrif, og þurkkur, vindátt og vindhraði. En svo er þetta líka spurning með hvernig við gerum okkar umhverfi, hvaða varnir við erum með. Þetta er eitthvað sem við þurfum líka að hugsa á Íslandi með auknum gróðri og auknum skógi.“

Þannig það er hægt að byggja upp einhverjar varnir og varúðarráðstafanir með þetta í huga?
„Við getum alltaf haft einhverjar varnir, en þegar hlutirnir eru á þessum skala sem þetta er núna úti í Kaliforníu þá er þetta náttúrulega afskaplega erfitt viðureignar.“