Banaslysið átti sér stað í október árið 2018. Um klukkutíma eftir að leik Leicester og West Ham í ensku úrvalsdeildinni lauk fór þyrla eigandans á loft frá miðjuhring King Power-leikvangsins í Leicester. Örskömmu síðar byrjaði vélin hins vegar að snúast í loftinu og hrapaði til jarðar á bílastæði utan við leikvanginn.
Fimm létust í slysinu en Srivaddhanaprabha keypti Leicester árið 2010 og vann félagið enska meistaratitilinn gríðarlega óvænt tímabilið 2015-16 þegar Srivaddhanaprabha var eigandi.
Nú hefur fjölskylda Srivaddhanaprabha hins vegar ákveðið að fara í mál við þyrlufyrirtækið Leonardo sem framleiddi þyrluna. Á mánudag hefst rannsókn þar sem vitni að atvikinu, starfsfólk bráðaþjónustu og fulltrúar þyrlufyrirtækisins munu bera vitni fyrir kviðdómi.
Skýrsla frá breskum flugmálayfirvöldum úrskurðaði árið 2023 að slysið hefði verið óumflýjanlegt eftir röð tæknilegra vandamála og þar kom sömuleiðis fram að flugmaður þyrlunnar hefði lítið getað gert til að bregðast við.
Lögmaður Srivaddhanaprabha-fjölskyldunnar segir mikilvægt að allir notendur þyrlanna frá Leonardo-fyrirtækinu treysti þyrlum fyrirtækisins. Fjölskyldan hefur krafist rúmlega tveggja milljarða punda í skaðabætur eða rúmlega 370 milljarða íslenskra króna.
„Við erum búin að skoða skýrsluna frá breskum flugmálayfirvöldum og skoðað í þaula hvernig við viljum bregðast við,“ sagði Aiyawatt Srivaddhanaprabha, sonur Vichai.
Talsmaður Leonardo segir að fyrirtækið muni berjast gegn skaðabótakröfu fjölskyldunnar.
„Dauði þessa fólks var afar sorglegur. Leonardo eru meðvitaður um málsóknina og mun nú ákveða næstu skref í samráði við lögfræðinga og tryggingafélag okkar. Leonardo mun verjast þessum ásökunum.“