Dansararnir stigu trylltan dans
Framlag dansaranna stóð klárlega upp úr. Þetta voru þau Denise Margrét Yaghi, Gylfi Már Hrafnsson, María Tinna Hauksdóttir, Þorkell Jónsson, Lovísa Lilja Brim Þórarinsdóttir og Svavar Erlendsson. Hver svo sem kóreógrafían var, þá lifnaði salurinn við um leið og dansararnir birtust á sviðinu. Hreyfingar þeirra voru áreynslulausar og heillandi, línurnar mjúkar og samspilið nákvæmt.
Dansararnir endurspegluðu þann léttleika sem einkennir heim Vínartónlistarinnar. Leikgleðin skein úr hverju spori og náðu þeir að heilla áhorfendur hvað eftir annað. Enda uppskáru þeir mikil fagnaðarlæti, svo mjög að annað á dagskránni féll í skuggann.
Góðar raddir – en texti úr lausu lofti
Söngvararnir, þau Bryndís Guðjónsdóttir sópran og Einar Dagur Jónsson tenór, stóðu sig vissulega með ágætum. Rödd Einars var eftirtektarverð; hljómurinn var fallegur og tónninn stöðugur, og hann virtist ráða prýðilega við hlutverk sín. Bryndís var einnig fín, túlkaði allt af auðfundinni einlægni og sveiflaði sér áreynslulaust upp á háu tónana, svo mjög að hápunktarnir í söng hennar voru ávallt tilkomumiklir. Samhljómurinn í dúettum kom líka vel út, og greinilegt að mikil vinna lá þar að baki.Vandinn var hins vegar að aríur og dúettar voru slitnir úr samhengi, og þegar slík atriði eru tekin úr ólíkum óperettum og raðað saman á tónleika vill merking þeirra fara fyrir ofan garð og neðan. Ég hugsa að fæstir áhorfendur hafi vitað um hvað verið var að syngja. Að vísu var hægt að glöggva sig á textanum í tónleikaskránni, en ógjörningur var að lesa hann vegna myrkurs í salnum.
Ýkt svipbrigði í stað náttúrulegrar tjáningar
Til að bæta upp fyrir skort á samhengi - hvað þá að atriðin væru kynnt af stjórnandanum, virtust söngvararnir leggja áherslu á ýkt svipbrigði, til að skýra meiningu textans. Fyrir þessu er góð og gild hefð en hér hafði þetta öfug áhrif. Söngvararnir geifluðu sig með tilburðum sem voru hálf pínlegir. Ýkt andlitstjáning getur vel passað í óperur og óperettur þegar samhengið er skýrt og hluti af gamansögu, en núna missti leikræn túlkun marks. Fæstir skelltu upp úr, jafnvel þótt atriðin væru í eðli sínu bráðfyndin í rétta samhenginu.Myrkur í salnum og skortur á húmor
Eitt af því sem oft hefur prýtt Vínartónleika er einmitt léttúðin og húmorinn. Í gegnum tíðina hafa margir fengið að upplifa kostulega brandara, sniðuga kynningu stjórnanda eða hnyttnar sviðssetningar sem gera þessa tónlist að skemmtilegri blöndu hámenningar og kátínu. Tónleikarnir á laugardeginum virtust hins vegar skorta þessa glettni. Það var eiginlega bara eitt atriði þar sem brugðið var á leik, einhvers konar flugnaveiðidans sem var satt best að segja óttalega kjánalegur. Aðstandendur tónleikanna hefðu því mátt liggja betur yfir húmornum.Í heildina var kvöldið þó vissulega ekki slæmt. Dansararnir voru frábærir, og söngvararnir sýndu góða takta. Hljómsveitin undir stjórn Ville Matvejeff spilaði af fagmennsku, hver tónn var á sínum stað og heildarhljómurinn þéttur og glæsilegur. En þegar öllu er á botninn hvolft var hér um sundurleita efnisskrá að ræða. Tengingin á milli verka var veik og leikgleði í framsetningu var takmörkuð. Tónleikaupplifunin varð því aldrei sú lífsgleði- og skemmtisprengja sem margir vonuðust eftir.
Niðurstaða:
Tónleikarnir stóðu ekki alveg undir væntingum, því þótt frábær dansatriði og sterkar raddir hafi glatt, vantaði meiri tengingu og húmor. Myrkrið í salnum torveldaði upplifunina og ýktu svipbrigði söngvaranna náðu ekki að vega upp á móti. Með betri upplýsingum og markvissari framsetningu hefði kvöldið getað orðið mun eftirminnilegra.