Erlent

Hindranir úr vegi og vopna­hléið endan­lega í höfn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Skoðanir eru skiptar í Ísrael og efnt var til mótmæla gegn vopnahlénu í gær.
Skoðanir eru skiptar í Ísrael og efnt var til mótmæla gegn vopnahlénu í gær. AP/Ohad Zwigenberg

Skrifstofa forsætisráðherra Ísraels, Benjamíns Netanjahú, segir nú að samkomulag sé í höfn við Hamas samtökin um lausn þeirra gísla sem enn eru í haldi samtakanna.

Í gær bárust af því fregnir að málið væri í uppnámi og þá að sama skapi vopnahléið sem á að taka gildi um helgina og standa í sex vikur. 

Netanjahú hafði frestað ríkisstjórnarfundi þar sem greiða átti atkvæði um vopnahléið vegna þessara atriða en nú hefur öryggisráð Ísraels verið kallað saman til fundar og ríkisstjórnin mun síðan í kjölfarið hittast og samþykkja vopnahlé á Gasa svæðinu. 

Deiluaðilar hafa þegar undirritað samkomulagið en samþykki Ísrealsstjórnar í heild er þó nauðsynlegt. 

Forsætisráðherra Katars, Sheikh Mohammed bin Abdul Rahman Al Thani, segir að vopnahléið muni síðan taka formlega gildi á sunnudaginn, að því gefnu að ríkisstjórni Ísraels gefi sitt samþykki. 

Harðlínumenn í ríkisstjórninni hafa sagst ætla að segja af sér verði vopnahlé samþykkt, en þeir hafa einnig gefið til kynna að þeir muni ekki ganga til liðs við stjórnarandstöðuna til þess að fella ríkisstjórnina á meðan þessar sex vikur líða, í það minnsta. 

Að því loknu vilja þeir að stríðsreksturinn á Gasa haldi áfram og því er óljóst um framtíð ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×