Körfubolti

„Erum með sam­félag sem trúir á okkur“

Árni Gísli Magnússon skrifar
Maddie Sutton í 4-liða úrslitunum fyrra
Maddie Sutton í 4-liða úrslitunum fyrra Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Maddie Sutton, leikmaður Þórs Akureyri, var ánægð og stolt með að komast í undanúrslit VÍS-bikarins eftir 94-87 sigur á Haukum á Akureyri í dag.

Þórsarar voru með yfirhöndina í leiknum en Haukar gáfust ekki upp og voru lokamínútnar æsispennandi.

„Þetta er frábært. Ég er ekkert smá ánægð að fara í undanúrslitin með þessu liði, við fórum í fyrra líka og það var frábært. Við erum ekkert smá spenntar í að sjá hvað við getum gert á þessu ári.“

Haukar eru í efsta sæti Bónus deildarinnar og var því um alvöru baráttu að ræða í dag þar sem Þór er einmitt í öðru sæti deildarinnar.

„Haukar eru með mjög gott lið, þetta eru liðin í fyrsta og öðru sæti að spila á móti hvort öðru þannig við vissum alltaf að þetta yrði erfitt og við myndum verða þreyttar en við þurftum bara að berjast af alvöru og sjá hvort liðið vildi þetta meira. Þær eru frábært lið en við eigum frábæra stuðningsmenn og spilum vel hérna heima fyrir og það var virkilega ljúft að sjá þetta detta okkar megin.“

Þór leiddi mest með 18 stigum í leiknum og var munurin 13 stig fyrir lokaleikhlutann. Haukar gáfu þó allt sitt og var munurinn eitt stig þegar þrjár mínútur lifðu leiks og urðu lokamínútur leiksins því æsispennandi.

„Okkur finnst gaman að því, að halda öllum á tánum“ sagði Maddie létt og hélt áfram: „Nei, þær eru frábært lið eins og ég sagði, þær kunna að vinna leiki, þær koma til baka eftir að hafa verið undir, þær vissu hvað þær þurftu að gera og við þurftum bara að halda áfram að spila okkar leik.“

„Við erum með mjög efnilegan leikmannahóp og frábært þjálfarateymi og erum með samfélag sem trúir á okkur og þegar allir þessi hlutir koma saman geta stórkostlegir hlutir átt sér stað“, sagði Maddie að lokum og brosti sínu breiðasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×