Innlent

Af þingi í skóla­mál á Austur­landi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Líneik tekur til starfa hjá Fjarðabyggð með vorinu.
Líneik tekur til starfa hjá Fjarðabyggð með vorinu. Vísir/Vilhelm

Líneik Anna Sævarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefur verið ráðin stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu hjá Fjarðabyggð. Líneik, sem mun hefja störf með vorinu, hefur setið á þingi frá 2013, með hléi. 

Í tilkynningu á vef Fjarðabyggðar segir að staðan hafi verið auglýst laus til umsóknar í lok nóvember á síðasta ári og umsóknarfrestur runnið út á Þorláksmessu. Tvær umsóknir hafi borist. Líneik muni hefja störf „með vorinu“.

„Líneik Anna var áður alþingismaður og er heldur ekki ókunn skólamálum í Fjarðabyggð en hún starfaði áður sem kennari og síðar skólastjóri við Grunnskólann á Fáskrúðsfirði, framkvæmdarstjóri Fræðslunets Austurlands og verkefnastjóri hjá Austurbrú. Einnig sat hún í sveitarstjórn Búðarhrepps og Austurbyggðar, ásamt ýmsum nefndum og ráðum sveitarfélagsins,“ segir á vef Fjarðabyggðar.

Í október síðastliðnum greindi Líneik frá því að hún myndi ekki sækjast eftir áframhaldandi þingsetu í þingkosningunum í nóvember. Hún var fyrst kjörin á þing í kosningunum 2013. 

Hún náði ekki á þing í kosningunum 2016 þegar Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð mynduðu ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn varð ekki langlíf, boða þurfti aftur til kosninga 2017 þar sem Líneik náði kjöri á ný. Líneik sat meðal annars í allsherjar- og menntamálanefnd á þingferli sínum.

Líneik er með BS-próf í líffræði frá Háskóla Íslands, próf í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda og diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×