Fótbolti

Lands­liðsþjálfarinn Arnar var í stúkunni þegar Há­kon mætti á Anfi­eld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson var á Anfield á þriðjudaginn.
Arnar Gunnlaugsson var á Anfield á þriðjudaginn. vísir/Sigurjón

Hákon Arnar Haraldsson átti fínan leik þegar Lille mátti þola naumt tap gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöld. Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands, var á leiknum.

Lille er í harðri baráttu um að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar á meðan Liverpool er þegar búið að tryggja sæti þar með sjö sigrum í sjö leikjum.

Fyrir leikinn á Anfield var það því heimaliðið sem var talsvert sigurstranglegra en þurfti vissulega að hafa fyrir því að landa þremur stigum þó gestirnir hafi verið manni færri í rúman hálftíma. Hákon Arnar kom að marki Lille en sjá mörkin úr leiknum hér að neðan.

Hákon Arnar var þó ekki eini Íslendingurinn á vellinum en landsliðsþjálfarinn var í stúkunni til að fylgjast með leikmanni sem ætti að vera í stórri rullu í komandi landsliðsverkefnum.

Hákon Arnar á Anfield.Richard Sellers/Getty Images

„Hann var taktískt agaður og var með mörg smáatriði á hreinu. Það var mjög gaman að sjá hann vera kominn á svona hátt getustig,“ sagði Arnar Gunnlaugsson í viðtali við Fótbolti.net um frammistöðu Skagamannsins unga á Anfield.

Arnar sagði jafnframt að það væri frábært að sjá leiki úr stúkunni því þá væri hægt að sjá mörg smáatriði sem ekki er hægt þegar horft er á leik í sjónvarpi.

„Ég hef spilað á þessum velli sjálfur og veit hversu erfitt er að mæta þarna með tryllta stuðningsmenn á bakvið þig. Það getur verið yfirþyrmandi andrúmsloft,“ sagði þjálfarinn einnig við Fótbolti.net.

Næsta verkefni landsliðsins eru umspilsleikir í Þjóðadeildinni gegn Kósovó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×