Fótbolti

Feyenoord pakkaði Bayern saman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Bayern áttu ekki sinn besta dag.
Leikmenn Bayern áttu ekki sinn besta dag. EPA-EFE/ROBIN VAN LONKHUIJSEN

Feyenoord vann nokkuð óvæntan 3-0 sigur á Bayern München í Meistaradeild Evrópu karla í knattspyrnu í kvöld. Þá skoraði Real Madríd fimm gegn Salzburg og Mílanó-liðin unnu 1-0 sigra.

Bæjarar voru heillum horfnir í Rotterdam en þrátt fyrir að skapa sér fjölda færa tókst gestunum ekki að skora og töpuðu á endanum 3-0. Staðan var 2-0 í hálfleik, Santiago Giménez með bæði og það síðara af vítapunktinum. Ayase Ueda bætti þriðja markinu við undir lok venjulegs leiktíma og lokatölur 3-0.

Feyenoord er nú í 11. sæti með 13 stig þegar ein umferð er eftir af deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu. Bayern er í 15. sæti með 12 stig.

Í Madríd kom Rodrygo heimamönnum í 2-0 í fyrri hálfleik eftir stoðsendingar frá Jude Bellingham. Kylian Mbappé og Vinícius Júnior (tvö) bættu við mörkum áður en Mads Bidstrup minnkaði muninn fyrir gestina, lokatölur 5-1.

Real Madríd er í 16. sæti með 12 stig á meðan Salzburg er í 34. sæti með þrjú stig.

Rafael Leão skoraði sigurmark AC Milan gegn Girona og Lautaro Martínez skoraði sigurmark Inter gegn Sparta Prag. Inter er í 4. sæti með 16 stig og AC Milan er í 6. sæti með 15 stig.

Efstu átta liðin að loknum átta umferðum fara beint í 16-liða úrslit. Liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×