Erlent

Sleppa fjórum gíslum gegn tvö hundruð föngum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Gíslarnir fjórir voru kvenhermenn í Ísraelsher.
Gíslarnir fjórir voru kvenhermenn í Ísraelsher. AP

Fjórum ísraelskum gíslum var sleppt úr haldi Hamas í Gasaborg í morgun. Búist er við að tvö hundruð palestínskum föngum í haldi Ísraels verði sleppt síðar í dag. Ísraelar segja Hamas hafa svikið þá um fimmta gíslinn en samtökin segja um tæknileg vandræði að ræða.

Gíslarnir fjórir eru konur sem hafa verið í haldi Hamas frá 7. október 2023, þegar samtökin gerðu hryðjuverkaárás á tónlistarhátíð í Ísrael. 

Aðgerðin er hluti af vopnahléssamning sem Ísrael og Hamas samþykktu í síðustu viku. Skiptin eru hluti af fyrsta fasa vopnahlésins, sem miðar að því að binda endi á átökin á Gasa. 

Frá því að vopnahléssamningurinn tók gildi hafa ein slík skipti farið fram en þremur gíslum var sleppt úr haldi Hamas og í leið níutíu palestínskum föngum úr haldi Ísraels síðasta sunnudag. 

Í samkomulaginu um skipti dagsins fólst einnig lausn fimmta gíslsins en sem fyrr segir var einungis fjórum sleppt úr haldi í dag. Reuters hefur eftir talsmanni Ísraelshers að með þessu hafi Hamas brotið samkomulagið. Samtökin segja aftur á móti um tæknileg vandræði að ræða en ekki liggur fyrir hvers vegna fimmta gíslinum var ekki sleppt í dag. 

Búist er við að enduruppbygging á Gasa komi til með að taka mörg ár. Myndin er tekin í borginni Rafa, þar sem Ísraelsher hefur gjöreyðilagt göturnar með árásum sínum. AP

Þá hefur Reuters eftir Hamas að búist sé við að tvö hundruð föngum verði sleppt úr haldi Ísraela í dag. Af þeim verði sjötíu vísað aftur til heimalands síns. 

Samkvæmt áætlun á fyrsti fasi vopnahlésins að taka sex vikur. Hann felur í sér lausn 33 ísraelskra gísla úr haldi Hamas og um 1900 palestínskra fanga úr haldi Ísraels. Fyrirhugað er að annar fasi vopnahlésins hefjist í byrjun febrúar, í miðjum fyrsta fasa. Hann felur í sér lausn allra gísla úr haldi Hamas og að Ísraelsher láti af hernaði á Gasa að fullu. 

Þriðji og síðasti fasinn felur í sér að Hamas afhendi líkamsleifar gísla sem létust í haldi þeirra og enduruppbyggingu á Gasa. Búist er við að sá fasi taki mörg ár. Hátt í fimmtíu þúsund Gasabúar hafa verið drepnir frá því í október 2023, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa. Um 1200 manns létu lífið í hryðjuverkaárásum Hamas í byrjun október 2023 og 251 var tekinn í gíslatöku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×