Stefán Árni Pálsson og sérfræðingarnir Helgi Már Magnússon og Ómar Sævarsson voru mættir í góðum gír þegar Bónus Körfuboltakvöld var á dagskrá síðastliðinn föstudag.
Þar ræddu þeir meðal annars lið Álftaness sem vann góðan sigur á KR á heimavelli sínum í Forsetahöllinni. Sóknarleikur Álftnesingar var til umræðu á jákvæðar breytingar hvað hann varðar.
„Meira á fyrsta tempói, sérstaklega í fyrri hálfleik og fyrsta leikhluta. Varnarleikur KR bauð svolítið upp á þetta,“ sagði Helgi Már Magnússon sérfræðingur Bónus Körfuboltakvölds.
„Í seinni hálfleik hægðist aðeins á þeim og þeir fóru að pæla aðeins meira. Þeir gerðu það vel og sóttu taktíst á KR, fóru að sækja á Okeke og Hauk [Helga Pálsson] undir körfuna.“
Helgi Már sagði þetta það besta sem Álftanes hefur sýnt sóknarlega í vetur og hrósaði einnig bandaríska leikmanni liðsins Justin James.
„Þetta er þeirra langbesta sóknarframmistaða í vetur. Ef þeir geta fundið þetta millibil, þeir skutu mjög vel í gær, en þeir þurfa að skjóta meira á fyrsta tempói. Ef þeir geta fundið jafnvægið á milli þess að hugsa og hugsa ekki neitt.“
„Það sem er mest áberandi við Álftanes núna er hvað Justin James er aggressívur. Hann er að sækja grimmt á hringinn ítrekað og kemst inn í teig. Hann gerði þetta vel gegn Stjörnunni í bikarnum og var farinn að losa boltann vel í gær, finna menn í hornunum.“
Alla umræðu þeirra félaga má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en þar ræða þeir frammistöðu Justin James enn frekar.