Forsvarsmenn sænsku lögreglunnar héldu blaðamannafund til þess að ræða tíðar sprengingar og aðgerðir til að stemma stigu við þeim í morgun. Sex sprengingar urðu á þriðjudag, meðal annars í Stokkhólmi og Helsingjaborg og segir Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, það fordæmalaust.
Tobias Bergkvist, aðstoðarlögreglustjóri í Stokkhólmi, sagði ástandið alvarlegt á landsvísu, ekki aðeins í höfuðborginni.
„Tengslin við glæpasamtök eru mjög skýr. Allir þessir glæpir eru framdir í því samhengi,“ sagði Bergkvist, að því er sænska ríkisútvarpið hefur eftir honum.
Ofbeldisaldan hefur stigmagnast, að sögn Hampus Nygårds, næstráðanda aðgerðadeildar landslögreglunnar. Hann sagði flestar sprengingarnar í gróðaskyni. Þau beinist að fyrirtækjum sem glæpamenn fjárkúga.
„Þeir krefjast fjár til þess að hætta ofbeldinu og hótununum,“ sagði Nygårds.
Brotamennirnir eru oft ungir að árum, allt niður í fimmtán ára gamlir. Glæpasamtökin leita í vaxandi mæli til samfélagsmiðla til þess að ráða ungt fólk til ofbeldisverka. Framboðið á þeim virðist óþrjótandi, að sögn Nygårds.
Um fimmtíu manns hafa verið handteknir í 25 málum til þess. Bergkvist sagði að í þeim hópi væru sprengjuvargar, sprengjusmiðir og einstaklingar sem hefðu verið handteknir erlendis. Lögreglan kæmi í veg fyrir frekari sprengingar og skotárásir í hverri viku en það dugi ekki til.
„Lögreglan safnar nú liði, sérstaklega í Stokkhólmi en líka á landsvísu. Við grípum til aðgerða, til dæmis með liðsauka frá öðrum lögregluudæmum,“ sagði aðstoðarlögreglustjórinn.