„Eins og þetta lítur út núna þá eru menn að reikna með að það geti eitthvað gerst um næstu mánaðamót en það er líka eins víst, við erum komin svo nálægt endalokunum að kannski er þetta bara búið og þetta eru síðustu hreyfingarnar sem við sjáum áður en það færir sig á næsta stað,“ segir Ármann sem fór yfir stöðuna í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hann segir hægt að sjá það á mælum sem mæla hreyfingar á jörðu. Þeir séu ekki allir eins ákveðnir og þeir hafi verið áður. Það sé meira hikst í mælunum og það segi að eitthvað sé að breytast.
Hverjir næstu staðir gætu verið segir Ármann svæðið vera í raun alveg frá Reykjanestá og að Hengli. Næstu kerfi sem myndu taka við séu tengd Krýsuvíkurkerfinu sem er mitt á milli Bláfjalla og Sundhnúkanna og svo sé sæmileg hrina í Bláfjöllum sem segi að öll kerfin séu að gera sig klár.
„Við erum með mikla hreyfingu sem hefur ekki verið mikið í mörg hundruð ár. Á skaganum sjálfum þurfum við að losa um nokkra metra og það tekur einhvern tíma. Við megum alveg búast við því að Sundhnúkarnir séu að fjara út og svo tekur hitt við,“ segir Ármann en tekur þó fram að þetta ferli geti tekið 200 til 300 ár.
Mesta framleiðsla kviku undir Íslandi
Undanfarið hafa verið skjálftar líka við Bárðarbungu. Ármann segir það við flekamót en þar sé líka að finna möttulstrókinn og þar sé mesta framleiðsla kviku undir Íslandi.
„Fari þessi svæði í gang megum við búast við gosum í stærri kantinum,“ segir Ármann. Bárðarbunga hafi verið að hreyfa sig hressilega síðan 2014/2015. Bárðarbungan sjálf sé kannski ekki endilega áhyggjuefni en gos á flekamótunum geti gosin verið ansi stór og „hafa í gegnum Íslandssöguna ekki verið skemmtileg“ að sögn Ármanns.