Salwan Momika var skotinn til bana í heimahúsi í bænum Södertälje nærri Stokkhólmi á miðvikudag. Morðið er sagt hafa verið sýnt í beinu streymi á netinu. Momika varð alræmdur fyrir að brenna Kóraninn, ýmist á opinberum stöðum eða í útsendingum á netinu árið 2023.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði á blaðamannafundi í gær að leyniþjónustan tæki þátt í rannsókn á morðinu „því það er augljóslega hætta á að það tengist erlendu ríki“.
Ekki er ljóst hvort að sá sem skaut Momika sé á meðal þeirra fimm manna sem voru handteknir og sæta gæsluvarðhaldi vegna dauða hans, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Kóranbrennur Momika ollu úlfaþyti árið 2023 en múslimar líta á ritið sem heilagt. Viðbúnaðar vegna hryðjuverkahættu var aukinn í Svíþjóð og Svíar varaðir við því að þeir gætu verið í hættu erlendis vegna hótana íslamskra öfgamanna. Tyrknesk stjórnvöld töfðu einnig inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið vegna brennanna.
Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, hótaði þeim sem vanhelguðu Kóraninn hörðum refsingum og sakaði Svíþjóð um að taka þátt í stríði gegn múslimaheiminum.