Bíó og sjónvarp

Ljós­brot hlaut aðalverðlaun í Gauta­borg

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Aðstandendur Ljósbrots á Cannes síðasta sumar.
Aðstandendur Ljósbrots á Cannes síðasta sumar. Getty

Kvikmyndin Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson hlaut í gær aðalverðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg sem besta norræna mynd ársins.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Gautaborg (GIFF) var haldin í 48. sinn í síðustu viku og lauk í gær með lokaathöfn þar sem Ljósbrot fékk hin virtu Drekaverðlaun fyrir bestu norrænu kvikmynd. Verðlaunafé að andvirði 400 þúsund sænskum krónum (rúmlega fimm milljónir íslenskra króna).

Í umsögn dómnefndar segir að verðlaunin séu veitt fyrir „frábærlega útfærða sviðsetningu, viðkvæmni og fíngerðan léttleika auk óvæntrar upplífgandi lýsingar leikstjóra á sorg sem er skarplega túlkuð af fullkomnum ungum leikhópnum“.

Þetta eru fjórtándu alþjóðlegu kvikmyndaverðlaun Ljósbrots. Myndin fékk til að mynda aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Osló í september og síðasta sumar hlaut myndin standandi lófaklapp sem opnunarmynd á Kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Rúnar Rúnarsson leikstjóri var veðurtepptur á Íslandi og komast því ekki á lokahóf hátíðarinnar en Heather Millard framleiðandi myndarinnar veitti verðlaununum viðtöku. Í ræðu sinni þakkaði hún öllum þeim sem komu að gerð myndarinnar og gerðu hana að veraleika.

„Kvikmyndir eru teymisvinna og hef ég verið lánsamur í gegnum tíðina að vinna með frábæru fólki. Ég er stoltur af þeim og því sem við höfum áorkað saman. Íslensk kvikmyndagerð hefur verið á miklu skriði og hefur það aðeins geta gerst vegna þess að jarðvegurinn, sem varð til við samvinnu ráðamanna, einkaaðila og listafólks, er til staðar,“ sagði Rúnar í tilefni verðlaunanna.

„En nú eru blikkur á lofti og ef kvikmyndasjóður verður fjársveltur næstu ár að þá munþetta mikla uppbyggingarstarf fara í súginn. Vona að ný ríkisstjórn vindi ofan af þessari þróun,“ sagði hann einnig.

Kvik­mynda­hátíðin í Gauta­borg er ein helsta kvik­mynda­hátíð Norður­land­anna. Árlega sækja á annað þúsund fagaðilar úr kvik­myndabransanum hátíðina og gest­ir á sýn­ing­um eru á þriðja hundrað þúsund tals­ins.

Ljósbrot gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússíbanareið tilfinninga. Þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr. Leikarar eru Elín Hall, Mikael Kaaber, Katla Njálsdóttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Ágúst Wigum og Baldur Einarsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.