Árásin átti sér stað um hádegi á þriðjudaginn í Campus Risbergska-skólann í Örebro. Í skólanum fer fram fullorðinsfræðsla en var hann áður framhaldsskóli.
Lögreglan í Svíþjóð hélt blaðamannafund um árásina í morgun.
Þar kom meðal annars fram að útkallið vegna árásarinnar barst klukkan 12:33 að staðartíma og að fyrstu lögregluþjónarnir voru mættir á vettvang rétt rúmlega fimm mínútum síðar.
Árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur sem hinn 35 ára gamli Rickard Andersson. Honum hefur verið lýst sem miklum einfara og hafði hann verið atvinnulaus um nokkuð skeið. Hann skipti um nafn fyrir átta árum en var með hreina sakaskrá og hafði ekki komist í kast við lögin áður.
Á fundinum kom fram að mögulegt sé að Andersson hafi á einhverjum tímapunkti stundað nám í skólanum en það mun ekki hafa verið staðfest. Aftonbladet hefur eftir heimildarmönnum sínum að svo virðist sem Andersson hafi ekki skotið fólk af handahófi. Hann hafi gengið framhjá sumum í skólanum.
Andersson skaut tíu til bana og særði nokkra til viðbótar en svipti sig svo lífi þegar lögregluþjóna bar að garði. Fyrst skaut hann þó á lögregluþjóna sem mættu fyrstir á vettvang, samkvæmt frétt Ríkisútvarps Svíþjóðar um blaðamannafundinn.
Lögregluþjónarnir svöruðu ekki skothríðinni en Andersson er sagður hafa notast við reyksprengjur í skólanum. Lík hans fannst ekki fyrr en rúmum klukkutíma eftir að lögregluþjónar mættu á vettvang. Hefur það verið útskýrt með því að vísa til þess að skólalóðin sé mjög stór og óreiðan hafi verið mikil á vettvangi.
Andersson var með leyfi fyrir fjórum byssum og þrjár þeirra fundust við hlið líks hans. Lögreglan hefur lagt hald á fjórðu byssuna sem mun væntanlega hafa fundist á heimili hans. Einnig fundust um tíu tóm magasín í skólanum og mikið magn af ónotuðu skotum í fórum Anderssons.
Ekki hefur verið upplýst um tegund skotvopnanna en að minnsta kosti eitt þeirra mun hafa verið riffill. Áður hefur komið fram að Andersson bar vopnin inn í skólann í gítartösku, eða sambærilegri tösku, og gekk um skólann um tíma. Þá hafi hann farið inn á salerni þar sem hann klæddi sig í föt í felulitum og tók upp byssurnar.