Innlent

Um­boðs­maður vill út­skýringar á svörum for­seta­em­bættisins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Halla Tómasdóttir forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands. Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands um fyrirkomulag upplýsingagjafar um málefni sem snerta forsetann.

Þetta kemur fram á vef umboðsmanns, en þar segir að á meðal þess sem spurt sé um sé hvaða reglur gildi um meðferð beiðna um upplýsingar um dagskrá forseta.

Rúv fjallaði í gær um svör forsetaskrifstofunnar við fyrirspurnum sem vörðuðu minningarathöfn um helförina í Auschwitz í lok janúar. Forsetaskrifstofan hafi veitt óskýr svör um þetta. Í svari frá skrifstofunni í byrjun desember hafi verið talað um að viðburðurinn stangist á við einkaferð forsetahjónanna.

En í síðustu viku hafi verið talað um að minningarathöfnin hentaði ekki dagskrá forsetans, og að ekki væri hægt að afhenda dagskrá hans. Í kjölfarið hafi fengist þau svör að þegar minningarathöfnin hafi verið haldin hafi forsetinn verið heima á Bessastöðum. Samkvæmt stjórnartíðindum hafi hún verið erlendis milli 17. janúar og komið heim 27. janúar, sama dag og minningarathöfnin fór fram.

Í bréfi umboðsmanns til skrifstofu forseta segir að óskað sé eftir upplýsingum um reglur sem varða upplýsingagjöf, líkt og um dagskrá forseta. Þá er óskað eftir því hvaða sjónarmið lágu til grundvallar þegar Rúv var synjað um upplýsingar um dagskránna.

„Er þá sérstaklega haft í huga að ekki var beðið um upplýsingarnar fyrir fram heldur eftir á,“ segir í bréfi umboðsmanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×