Sport

Erna hlaut silfur en Irma og Aníta brons

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Erna Sóley, Aníta og Irma unnu til verðlauna fyrir Íslands hönd.
Erna Sóley, Aníta og Irma unnu til verðlauna fyrir Íslands hönd. vísir / getty

Erna Sóley Gunnarsdóttir, Aníta Hinriksdóttir og Irma Gunnarsdóttir komust allar á verðlaunapall í dag á Norðurlandameistaramótinu í frjálsíþróttum innanhúss.

Vísir greindi frá því fyrr í dag þegar Baldvin Þór Magnússon vann til gullverðlauna í þrjú þúsund metra hlaupi.

Erna Sóley Gunnarsdóttir hlaut síðan silfurverðlaun í kúluvarpi með kasti upp á 17,63 metra, 29 sentimetrum frá Íslandsmeti hennar í greininni. Senja Mäkitörmä frá Finn­landi skákaði Ernu með 17,74 metra kasti.

Irma Gunnarsdóttir vann bronsverðlaunin í langstökki með 6,24 metra löngu stökki. Taika Koila­hti frá Finn­landi stökk 6,31 metra og varð Norður­landa­meist­ari og Til­de Johans­son frá Svíþjóð stökk 6,30 metra og fékk silfrið.

Íslandsmetið er í eigu Hafdísar Sigurðardóttir sem stökk eitt sinn 6,54 metra. Besta stökk Irmu var fyrir ári síðan, 6,45 metra langt.

Aníta Hinriksdóttir hlaut einnig bronsverðlaun, í átta hundruð metra hlaupi. Hún hljóp á 2:03,71. Annemarie Nissen frá Danmörku varð í öðru sæti og Malin Nyfors frá Noregi í fyrsta sæti en hljóp á 2:01,97. Íslandsmet Anítu er 2:00,05.

Alls komust því fjórir Íslendingar á verðlaunapall. Ein gullverðlaun, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Alls tóku níu Íslendingar þátt í mótinu.

Ísland tefldi fram sameiginlegu liði með Danmörku gegn liðum frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.


Tengdar fréttir

Baldvin stórbætti eigið Íslandsmet og tryggði sig inn á EM

Baldvin Þór Magnússon bætti eigið Íslandsmet í þrjú þúsund metra hlaupi innanhúss um rúmar fimm sekúndur. Hann hafði betur gegn Norðmanninum Filip Ingebrigtsen og stóð uppi sem sigurvegari á Norðurlandameistaramótinu. Í leiðinni tryggði Baldur sér þátttökurétt á Evrópumótinu sem fer fram í Hollandi í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×