Enski boltinn

Slot sér ekki eftir því að hafa hvílt stjörnurnar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arne Slot og hans menn í Liverpool misstigu sig harkalega í dag. 
Arne Slot og hans menn í Liverpool misstigu sig harkalega í dag.  getty

Arne Slot gerði tíu breytingar á liði Liverpool fyrir FA bikarleikinn sem tapaðist 1-0 gegn B-deildarliði Plymouth Argyle fyrr í dag. Hann sér ekki eftir því og segist ekki viss um að annars hefði leikurinn unnist.

„Þú veist ekki hvað hefði gerst ef við hefðum ekki breytt liðinu. Við höfum séð það á þessu tímabili að þetta er leikstíll sem við eigum erfitt með að brjóta niður, hvort sem við hefðum verið með allt aðalliðið eða bara leikmennina sem spiluðu í dag,“ sagði Slot á blaðamannafundi eftir leik, aðspurður hvort hann sæi eftir ákvörðuninni.

Meðal þeirra leikmanna sem voru utan hóps hjá Liverpool í dag eru: Alisson, Conor Bradley, Virgil van Dijk, Ibrahima Konate, Andy Robertson, Alexis Mac Allister, Ryan Gravenberch, Dominik Szoboslai, Cody Gakpo og Mohamed Salah. Auk þess er Trent Alexander-Arnold frá vegna meiðsla.

„Niðurstaðan og frammistaðan eru augljóslega gríðarleg vonbrigði, það var ekki margt til að gleðjast yfir en ég var ánægður með að strákarnir hafi barist allar hundrað mínúturnar sem leikurinn stóð og að okkar besti kafli hafi verið síðustu tíu mínúturnar.“

Arne Slot gaf markaskoraranum mikla, Mohamed Salah, frí í dag. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Liverpool missti Joe Gomez, fyrirliða dagsins, í meiðsli. Hann fór af velli eftir aðeins tíu mínútur en óvitað er hversu alvarleg meiðslin eru. Liðið verður þó ekki undir eins miklu leikjaálagi og búist var við það sem það er úr leik í FA bikarnum eftir úrslit dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×