Sagði hann að það ætti að vera forgangsatriði hjá öllum að endurreisa Gasa án þess að flytja íbúa á brott og mæta þörfinni fyrir neyðaraðstoð á svæðinu.
Nokkrum klukkustundum áður hafði Trump fullyrt að Bandaríkjamenn hefðu einhvers konar rétt eða vald til þess að „taka“ Gasa en hann hefur þrýst mjög á stjórnvöld í Jórdaníu og Egyptalandi um að taka við íbúum svæðisins.
Hugmyndir hans hafa verið fordæmdar af ráðamönnum um allan heim.
„Við munum fá Gasa,“ sagði Trump þar sem hann sat við hlið konungsins. „Þetta er stríðshrjáð svæði. Við ætlum að taka það. Við ætlum að halda því. Við ætlum að varðveita það,“ sagði forsetinn.
I reiterated Jordan’s steadfast position against the displacement of Palestinians in Gaza and the West Bank. This is the unified Arab position. Rebuilding Gaza without displacing the Palestinians and addressing the dire humanitarian situation should be the priority for all.
— عبدالله بن الحسين (@KingAbdullahII) February 11, 2025
Miðlar vestanhafs segja Abdullah II konung hins vegar hafa verið beinskeyttan við Trump í tveggja manna tali en konungurinn sagði á samfélagsmiðlum að friður á grundvelli tveggja-ríkja lausnarinnar væri eina leiðin til að tryggja stöðugleika og að Bandaríkin þyrftu að taka forystu hvað það varðaði.
Talsmaður stjórnvalda í Eygptalandi tjáði sig einnig á samfélagsmiðlum í gær og sagði að þau myndu vinna með Bandaríkjunum að lausn fyrir Palestínumenn en að þeir þyrftu að fá að vera áfram í heimalandi sínu.
Framtíð vopnahlésis á Gasa er í óvissu eftir að Hamas-samtökin gáfu til kynna að þau myndu ekki láta fleiri gísla lausa að svo stöddu. Bæði Trump og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segja friðinn þá munu verða úti.
New York Times hefur eftir Jonathan Panikoff, framkvæmdastjóra Scowcroft Middle East Security Initiative við hugveituna Atlantic Council, að leiðtogar á svæðinu geri nú hvað þeir geta til að viðhalda stöðugleika á svæðinu.
Útspil Trump hafi verið sem olía á eld ófriðarbálsins.