Neytendur

„Þjóðarsport“ að hækka vöru­verð í janúar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Benjamín Julian, verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ, segir það skjóta skökku við að verslanir skuli hækka vöruverð þegar verið sé að reyna að granda verðbólgunni.
Benjamín Julian, verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ, segir það skjóta skökku við að verslanir skuli hækka vöruverð þegar verið sé að reyna að granda verðbólgunni. Vísir/Einar

Matvöruverð tekur stökk upp á við í febrúar. Verð á tilbúnum réttum, sælgæti og fuglakjöti hækkaði sérstaklega en ávaxtaverð lækkar. Verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ segir skjóta skökku við að verslanir tilkynni um hækkanir þegar samfélagið allt sé að reyna að keyra niður verðbólgu fyrir fullt og allt. 

Dagvöruvísitala verðlagseftirlitsins hefur hækkað um 0,22 prósent milli mánaða en ef nýjustu gögn eru skoðuð, sem undanskilja afsláttardaga heilsudaga í Nettó, og mælist hækkunin þá 0,62 prósent.

„Það er mögulegt að þetta sjáist ekki í vísitölu Hagstofunnar bara út af því að það var afsláttarvika í Nettó í byrjun mánaðarins. Að henni lokinni sjáum við að það er svolítil hækkun,“ segir Benjamín Julian, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ. 

Tilbúnir réttir, sælgæti og fuglakjöt rífa vísitöluna upp

Á síðasta árinu hefur mest hækkun mælst í nóvember, þegar um fimmtungur vöruflokka hækkaði í verði.

„Núna erum við að tala um undir tíu prósent. Þannig að þetta er ekki á jafn breiðum grunni, sem er fínt. Það þýðir að þetta er ekki jafn almennt. Það er verra tilfelli ef það er almennari hækkun.“ 

Þeir vöruflokkar sem vega hæst í hækkun vísitölunnar eru tilbúnir réttir, sælgæti og fuglakjöt. Þá hækkar verð á innfluttum osti í Krónunni og tómatar í lausu hækkuðu um 63 prósent milli mánaða í Bónus. Verð á ávöxtum lækkar hins vegar.

„Ef fólk er að reyna að halda áfram heilsudögunum frá janúar þá er hægt að gera það þarna, skipta út sælgætinu fyrir ávexti,“ segir Benjamín. 

Skoða hvort innistæða sé fyrir hækkunum

Það skjóti skökku við að á tímum sem þessum, þar sem samfélagið í heild er að leggja sig allt fram um að lækka verðbólgu, að vöruverð skuli vera hækkað.

„Það er eitthvað þjóðarsport að tilkynna hækkanir í janúar og líta svo á að í hvert skipti sem laun hækka, þó það sé um jafn lága prósentu og núna að það þurfi að fleyta því beint inn í vöruverðið. Við munum skoða það á ársreikningum fyrirtækja hvort það sé innistæða fyrir því eða hvort fólk sé að gera þetta til að skara meiri eld að eigin köku,“ segir Benjamín.


Tengdar fréttir

Matvöruverð tekur stökk upp á við

Dagvöruvísitala hækkaði um 0,22% á milli mánaða samkvæmt nýrri úttekt verðlagseftirlits ASÍ. Um er að ræða nokkurn viðsnúning frá mælingu eftirlitsins sem gerða var í síðustu viku þegar hækkun milli mánaða stóð í stað. Meðal þess sem hækkar mest er innfluttur ostur, kjúklingur, tómatar í lausu og sælgæti. Ávextir hafa hins vegar lækkað í verði.

Verðbólgumælingin var ekki „jafn upp­ör­vandi“ og lækkunin gaf til kynna

Ef ekki hefði komið til lækkunar húsnæðisliðarins og flugfargjalda umfram spár greinenda þá hefði mælda tólf mánaða verðbólgan hækkað í fimm prósent í janúar, að sögn aðalhagfræðings Kviku banka, sem óttast „vaxandi tregðu“ í þeirri verðbólgu sem eftir stendur. Þótt nýjasta verðbólgumælingin hafi ekki verið „jafn uppörvandi“ og hjöðnunin gaf til kynna þá ætti hún samt að „innsigla“ aðra fimmtíu punkta vaxtalækkun í næstu viku, meðal annars vegna þess að verðbólguvæntingar eru á hraðri niðurleið.

Fátt nýtt í skila­boðum bankans og ekki ástæðu til að endur­meta vaxta­horfurnar

Þrátt fyrir varfærinn tón í skilaboðum Seðlabankans þá hefur ekki orðið nein breyting á meginstefnu peningastefnunefndar um lækkun vaxta í takt við verðbólgu og verðbólguvæntingar, að sögn aðalhagfræðings Kviku, en miðað við þróttinn í hagkerfinu er samt ósennilegt að lokavextir lækkunarferlisins fari nálægt þeim gildum sem voru fyrir faraldur. Launakostnaður er að hækka talsvert umfram það sem samræmis verðstöðugleika og seðlabankastjóri segir að áhættan á vinnumarkaði, þar sem enn er ósamið við kennara, sé upp á við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×