Innlent

Hætta áætlunar­flugi til Húsa­víkur í næsta mánuði

Kjartan Kjartansson skrifar
Flugvallarbyggingin á Húsavíkurflugvelli.
Flugvallarbyggingin á Húsavíkurflugvelli.

Flugfélagið Norlandair ætlar ekki að halda áfram áætlunarflugi til Húsavíkur eftir að núgildandi samningur þess við ríkið rennur út um miðjan mars. Byggðaráð Norðurþing skorar á samgönguráðherra að tryggja flug til Húsavíkur allt árið.

Norlandair tók við áætlunarflugi til Húsavíkur með samningi við Vegagerðina í byrjun desember. Flogið hefur verið fjórum sinnum í viku á milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Fulltrúar flugfélagsins greindu byggðaráði Norðurþings á fundi þess í dag að það ætlaði ekki að halda fluginu áfram eftir að samningurinn rennur út 15. mars.

Í fundargerð byggðaráðsins kemur fram að það telji að samningurinn hafi verið gerður til of skamms tíma. Nýting ferðanna hafi verið góð og lítið vantað upp á til að tryggja flug til Húsavíkur allt árið um kring.

„Byggðarráð skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála að tryggja samninga um áætlunarflug til Húsavíkur allt árið,“ segir í fundargerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×