Skoðun

Fag­legt val í stjórnir ríkis­fyrir­tækja

Daði Már Kristófersson skrifar

Stjórnir fyrirtækja gegna lykilhlutverki í því að tryggja góðan rekstur og framsýna stjórnun. Það er því afar mikilvægt að hæfir einstaklingar, með rétta þekkingu, reynslu og menntun, skipi stjórnir fyrirtækja, hvort sem þau eru einkarekin eða í eigu ríkis.

Til að stuðla að réttlátu og gagnsæju ferli hef ég því sett nýjar reglur fyrir val í stjórnir stærri ríkisfyrirtækja sem eru: Landsvirkjun, Landsnet, Rarik, Orkubú Vestfjarða, Íslandspóstur, Isavia og Harpa.

Valferlið verður nú byggt á faglegum forsendum þar sem valnefnd tilnefnir tvo hæfa einstaklinga fyrir hvert stjórnarsæti. Við valið skal sérstaklega hugað að breiðri samsetningu hvað varðar menntun, reynslu, kyn og faglegan bakgrunn. Ráðherra tekur svo lokaákvörðun og skipar stjórnina. Svipað ferli hefur þegar verið notað við val í stjórnir ríkisbankanna, með góðum árangri.

Hvorki starfsmenn né kjörnir fulltrúar skulu sitja í stjórnum

Í hinum nýju reglum er sérstök áhersla lögð á óhæði stjórnarmanna gagnvart fyrirtækjum og daglegum stjórnendum þeirra. Mikilvægt er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og því er ákveðið að hvorki starfsfólk fyrirtækisins né kjörnir fulltrúar á Alþingi eða í sveitarstjórnum eigi sæti í stjórnum ríkisfyrirtækja.

Þessi breyting er mikilvægt framfaraskref sem tryggir ábyrga og öfluga stjórnun ríkisfyrirtækja. Ég er sannfærður um að hún muni skila sér í betri árangri og aukinni fagmennsku í rekstri fyrirtækjanna Landsvirkjunar, Landsnets, Rariks, Orkubús Vestfjarða, Íslandspósts, Isavia og Hörpu, og hvet ég fólk, sem telur sig eiga erindi í slíkar stjórnir, til að sækja um.

Höfundur er fjármála- og efnahagsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Hug­takinu al­manna­heill snúið á haus

Björg Eva Erlendsdóttir,Þorgerður María Þorbjarnardóttir,Árni Finnsson ,Snæbjörn Guðmundsson,Elvar Örn Friðriksso,Friðleifur E. Guðmundsson,Snorri Hallgrímsson,Sigþrúður Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×