Danska ríkisútvarpið sagði frá atviki í leiknum þegar Eriksson gaf kærustu sinni vænt olnbogaskot og fékk grimmt augnaráð að launum. Svíarnir unnu leikinn á endanum 2-1 en Harder skoraði mark Dana úr vítaspyrnu.
Þær Harder og Eriksson töluðu um það fyrir leikinn að þær ætluðu ekki sýna hvorri annarri neina miskunn í leiknum. Þær stóðu heldur betur við það. Það var hins vegar sjokk fyrir þá dönsku að fá að launum svo fast olnbogaskot að hún lá eftir sárþjáð.
„Ég hef ekki talað við hana ennþá. Hún var svolítið leið strax á eftir en ég mun tala við hana á eftir,“ sagði Harder við DR eftir leikinn. Hún skellti síðan upp úr og það var því ekki von á uppgjöri seinna um kvöldið.
„Svona er þetta bara. Þetta er bara fótbolti. Ég veit að hún spilar svona og það er í fínu lagi. Ég snöggreiddist strax á eftir en það er allt í góðu núna,“ sagði Harder.
Harder og Eriksson hafa verið par síðan í maí 2014 eða í meira en áratug. Þær trúlofuði sig síðasta sumar.
Þær sömdu báðar við Bayern München fyrir 2023-24 tímabilið og eru liðsfélaga Glódísar Perlu Viggósdóttur sem bar einnig fyrirliðabandið í Þjóðadeildinni í gær.
Þær hafa enn fremur verið liðsfélaga í félagsliði frá því að Harder var keypt til Chelsea fyrir þáverandi heimsmet í september 2020.
