Fasteignaþróunarfélagið Íslenskar fasteignir og landeigendur Heiðarlands Vogajarða hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbygginguna, sem bæjarstjóri Voga segir mikið fagnaðarefni.
„Hér hefur verið mikill uppgangur og uppbygging, og það er þörf á aukinni þjónustu og verslun. Svo getur þetta verkefni líka verið mikil lyftistöng fyrir svæðið allt,“ segir Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri Voga.

Fjárfestar hafi talað um að vinna við verkefnið muni taka tvö til þrjú ár. Guðrún segir verkefnið undirstrika hagfellda staðsetningu Voga.
„Það er annars vegar nálægðin við Keflavíkurflugvöll, sem er áætlað að á næsta ári fari 2,5 milljónir ferðamanna um, og svo hins vegar nálægðin við höfuðborgarsvæðið.“
Þrátt fyrir að staðsetningin sé hagfelld að mörgu leyti er vert að spyrja hvort nálægð við eldsumbrot á Reykjanesskaga undanfarin ár hafi ekki áhrif, og hvort hugsað hafi verið til þess þegar lagt var af stað í verkefnið.

„Nú er það svo að þetta svæði er utan núgildandi hættumats Veðurstofunnar og það er verið að vinna að langtímahættumati. Við búum auðvitað á eldfjallaeyju og erum orðin vön eldsumbrotum hér á svæðinu, og tökum þeim með jafnaðargeði. Svo er það auðvitað fjárfestanna sjálfra að þróa verkefnið áfram. En við erum bjartsýn á framtíðina og framtíð svæðisins,“ segir Guðrún.