Innlent

Vilja færa skipulagsvald al­þjóða­flug­valla til ríkis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Séð yfir Reykjavíkurflugvöll. Til hægri má sjá Hlíðarendahverfið sem Reykjavíkurborg skipulagði með þeim hætti að ein af flugbrautum vallarins varð ónothæf.
Séð yfir Reykjavíkurflugvöll. Til hægri má sjá Hlíðarendahverfið sem Reykjavíkurborg skipulagði með þeim hætti að ein af flugbrautum vallarins varð ónothæf. Arnar Halldórsson

Sjálfstæðismenn vilja færa skipulagsvald yfir alþjóðaflugvöllum á Íslandi frá sveitarfélögum yfir til ríkisins. Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti um síðustu helgi.

„Skipulagsvald yfir landi sem notað er til varnarmála og reksturs alþjóðaflugvalla skal vera á forræði ríkisins,“ segir í samþykkt sjálfstæðismanna.

Keflavíkurflugvöllur nýtur raunar sérstöðu í skipulagsmálum. Hann er eini alþjóðaflugvöllur landsins þar sem skipulagsvaldið er ekki á forræði viðkomandi sveitarfélaga. 

Þar hefur Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar, sem heyrir undir innviðaráðherra, umsjón með skipulagsmálum á sveitarstjórnarstigi og veitir lokaákvörðun um deili- og aðalskipulag flugvallarsvæðisins. Ráðherra skipar alla fimm nefndarmenn, þar af einn samkvæmt tilnefningu frá utanríkisráðuneyti og tvö samkvæmt tilnefningu sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Skipulagsvald Keflavíkurflugvallar er alfarið hjá ríkinu.Vilhelm Gunnarsson

Skipulagsvald hinna þriggja alþjóðaflugvalla landsins heyrir undir viðkomandi sveitarfélög. Þeir eru Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur. Samkvæmt ályktun Sjálfstæðisflokksins vill hann að það sama gildi um þessa þrjá flugvelli og Keflavíkurflugvöll; að ríkið fari með skipulagsvald þeirra allra.

Leiða má líkur að því að þau áralöngu átök, sem verið hafa um Reykjavíkurflugvöll, einkum á milli borgarstjórnar Reykjavíkur og ríkisvaldsins, séu kveikjan að samþykkt sjálfstæðismanna. Nýjasta dæmið er sá dráttur sem varð á því að borgaryfirvöld létu lækka trjágróður í Öskjuhlíð, sem leiddi til þess að einni flugbraut vallarins var lokað.

Lokun flugbrautarinnar varð til þess að bæjar- og sveitarstjórar tíu landsbyggðarsveitarfélaga, sem mikið eiga undir flugsamgöngum, birtu sameiginlega grein á Vísi í síðasta mánuði þar sem þeir mótmæltu því að trjágróður í Öskjuhlíð nyti forgangs þegar um líf og heilsu fólks utan af landi væri að ræða. Sögðu að öllum mætti vera ljóst að Reykjavíkurflugvöllur færi ekki burtu úr Vatnsmýrinni á næstu árum eða jafnvel áratugum. Ennfremur að allt tal um að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur lýsti skilningsleysi á aðstöðu þeirra sem byggju úti á landi.

Hugmyndin um að ríkið taki yfir skipulagsvald allra alþjóðaflugvallanna er ekki ný. Þannig varpaði Njáll Trausti Friðbertsson, þáverandi bæjarfulltrúi á Akureyri og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þessari hugmynd fram í bæjarstjórn Akureyrar árið 2015. Njáll var á sínum tíma annar forsvarsmanna Hjartans í Vatnsmýri, undirskriftasöfnunar til stuðnings flugvellinum.


Tengdar fréttir

Flug­brautin opnuð á ný

Frá og með morgundeginum verður sjúkraflug um austur-vesturflugbraut Reykjavíkurflugvallar leyft á ný. Brautin hefur verið lokuð í tæpar þrjár vikur.

Krefja borgina um tafarlaus viðbrögð

Sveitarstjórn Norðurþings hefur gefið út yfirlýsingu þar sem tekið er undir kröfu miðstöðvar sjúkraflugs um að Reykjavík tryggi opnun flugbrauta 13 og 31 með eins tafarlausum hætti og mögulegt er. Aðgengi að Reykjavíkurflugvelli sé lífsnauðsynlegt fyrir veika og slasaða af stærstum hluta landsins.

Ráðherra segist ekki skilja hvað þau hjá borginni eru að hugsa

Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir grafalvarlegt mál að einni flugbraut Reykjavíkurflugvallar verði lokað sökum þess að Reykjavíkurborg hafi dregið að fella trjágróður í Öskjuhlíð. Ráðherrann segist ekki skilja hvað þau hjá borginni eru að hugsa með því að haga sér svona.

Ný loftferðalög skerða skipulagsvald sveitarfélaga yfir flugvöllum

Ný ákvæði laga um loftferðir, sem Alþingi samþykkti á lokasprettinum í fyrrinótt, gera skipulagsreglur flugvalla rétthærri skipulagi sveitarfélaga. Bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg lögðust gegn lagabreytingunni og sagði fráfarandi borgarstjórnarmeirihluti í Reykjavík hana kollvarpa því skipulagsvaldi sem sveitarfélög hefðu yfir flugvöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×