For­est tók stórt skref í átt að Meistara­deild Evrópu

Sindri Sverrisson skrifar
Matz Sels grípur boltann á undan Erling Haaland í leiknum í dag.
Matz Sels grípur boltann á undan Erling Haaland í leiknum í dag. Getty/Mike Egerton

Englandsmeisturum Manchester City mistókst að komast upp fyrir Nottingham Forest þegar þeir töpuðu 1-0 í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Callum Hudson-Odoi skoraði sigurmarkið á 83. mínútu þegar hann kom með boltann af hægri kantinum og náði að skora á nærstöng, framhjá Ederson sem hefði eflaust getað gert betur í marki City.

Eins og lokatölur leiksins bera með sér þá var ekki mikið um færi í leiknum. Nico González komst næst því að skora í fyrri hálfleiknum þegar hann átti þrumuskot utan teigs sem fór í stöngina og framhjá.

Um miðjan seinni hálfleik var Hudson-Odoi óhemju nálægt því að skora fyrir heimamenn en Ederson tókst einhvern veginn að koma fingrum í boltann og verja í stöng. Hann varð hins vegar að játa sig sigraðan skömmu síðar eins og fyrr segir.

Varamaðurinn Mateo Kovacic var næstum því búinn að tryggja City jafntefli með frábæru skoti í uppbótartíma en boltinn sleikti stöngina.

Úrslitin þýða að Forest er áfram í 3. sæti deildarinnar og nú fjórum stigum á undan City sem er í 4. sætinu með 47 stig. Chelsea er með 46 stig og getur nú komist upp fyrir City með sigri gegn Leicester á morgun. 

Newcastle er svo í 6. sæti með 44 stig og leik til góða við West Ham á mánudag en allt bendir til þess að fimm efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni komist í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, vegna góðs árangurs ensku liðanna í Evrópukeppnum í ár.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira